Vika 39: Dagbók bæjarstjóra

Góður gangur er í byggingu nemendagarða Lýðskólans á Flateyri.
Góður gangur er í byggingu nemendagarða Lýðskólans á Flateyri.

Dagbók bæjarstjóra í viku 39, 26. september-2. október.

Vikan hófst sem fyrr með fundi bæjarráðs.

Eitt af þeim verkefnum sem við erum að vinna að um þessar mundir er gerð húsnæðisáætlunar fyrir Ísafjarðarbæ. Okkur ber að gera húsnæðisáætlun til fjögurra ára í senn en hún á að byggja á greiningum um þörf fyrir íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu með tilliti til mismunandi búsetuforma. Það er ekki langt síðan þessar húsnæðisáætlanir litu dagsins ljós en þær eru mikilvægar til að spá fyrir um þörf fyrir íbúðahúsnæði og liggja til grundvallar við úthlutun stofnframlaga frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Við erum með tvö slík verkefni í gangi; annars vegar bygging nemendagarða á Flateyri í tengslum við Lýðskólann og svo bygging nemendagarða á Ísafirði með Háskólasetri Vestfjarða. Þetta eru mikilvæg framfaraverkefni fyrir Ísafjarðarbæ.

Hér er má fylgjast með byggingu nemendagarðanna á Flateyri í beinni.

Fjárhagsáætlunarvinnan er í fullum gangi og það tók góðan tíma bæjarráðs. Þar er meðal annars verið að ræða forsendur áætlunarinnar, útsvarsprósentu og álagningarhlutfall. Það hefur verið mikil hækkun fasteignaverðs í sveitarfélaginu sl. ár og það skilar sér í bæjarkassann. Það er lítil stemmning að leggja miklar álögur á bæjarbúa en okkur veitir ekki af tekjunum. Þetta verður strembið hjá okkur að ná þessum saman og þar skiptir verðbólgan miklu máli.

Vikan einkenndist af miklum ferðalögum og samstarfi og samráði á milli fulltrúa sveitarfélaga.

Með stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga í Ásbyrgi.

Ég fór suður til Reykjavíkur á mánudagskvöld til þess að fljúga með stjórn og starfsmönnum Lánasjóðs sveitarfélaga til Egilsstaða á þriðjudagsmorgun. Ég hef setið í stjórn Lánasjóðsins í nokkur ár og er helsta markmið sjóðsins að útvega sveitarfélögum, stofnunum þeirra og fyrirtækjum lánsfé á sem hagstöðum kjörum. Við förum allajafna einu sinni á ári í ferð og heimsækjum nokkur sveitarfélög. Í ár heimsóttum við Múlaþing, Fjarðabyggð, Vopnafjörð og Norðurþing. Við byrjuðum á að fara í Múlaþing en þeirra skrifstofur eru á Egilsstöðum. Þaðan fórum við og funduðum með Fjarðabyggð en þeirra skrifstofur eru á Reyðarfirði. Við komum í kjölfar þessa mikla óveðurs sem gekk yfir Austurland á síðustu helgi og ótrúlegt að verða vitni að þessu mikla tjóni sem veðurofsinn olli. Þessi sveitarfélög eru fjölkjarna sveitarfélög, fyrir utan Vopnafjörð, og lík Ísafjarðarbæ að mörgu leyti. Það er fróðlegt að heyra hvaða áskoranir önnur sveitarfélög eru að fást við og alveg ljóst að við getum lært margt hvort af öðru. Við renndum í gegnum Bakkafjörð og Þórshöfn á leið okkar á Húsavík en náðum ekki að hitta sveitarstjórnina í Langanesbyggð í þessari ferð.

Á Landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga á Akureyri.

Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga var haldið síðar í vikunni á Akureyri. Fulltrúar Ísafjarðarbæjar á landsþingi voru þær Nanný Arna, Sigga Júlla og Steinunn og ég þar í hlutverki auðmjúks embættismanns. Á þriðja hundrað sveitarstjórnarmanna, framkvæmdastjóra sveitarfélaga og framkvæmdastjóra landshlutasamtaka voru þarna saman komin frá flest öllum sveitarfélögum landsins. Yfirskrift þingsins var Grunnur að góðu samfélagi. Helsta verkefni fundarins var að móta stefnu sambandsins til næstu fjögurra ára, meðal annars um samspil ríkis og sveitarfélaga. Þar bar einna helst vanfjármögnun í málaflokki fatlaðs fólks, hjúkrunarheimila og í málefnum barna með fjölþættan vanda. Þá stöðum þekkjum við vel í Ísafjarðarbæ, og t.a.m. er gert ráð fyrir því að tap á málaflokki fatlaðs fólks á Vestfjörðum verði tæpar 200 m.kr. og leggjast þar af 100 m.kr. á Ísafjarðarbæ. Mikil samstaða einkenndi þingið og gaman að hitta annað sveitarstjórnarfólk. Nanný Arna var kosin í stjórn Sambandsins sem við erum sérstaklega kát með. Það skiptir máli að rödd okkar heyrist á þessum vettvangi.

Ferðalag bæjarstjóra í viku 39.

Samferðakonur mínar á heimleiðinni staðhæfa að við séum fljótari að fara Vestfjarðaveg 60 í stað 61. Ég er ekki viss en það var fínasta tilbreyting að keyra vesturleiðina í stað þess fara Djúpið af gömlum vana. Það gengur allavega vel með Þorskafjarðarbrúna og vegaframkvæmdir á Dynjandisheiði.