Vika 38: Dagbók bæjarstjóra

Gramsverslun á Þingeyri. Mynd úr skoðunarskýrslu Tækniþjónustu Vestfjarða.
Gramsverslun á Þingeyri. Mynd úr skoðunarskýrslu Tækniþjónustu Vestfjarða.

Dagbók bæjarstjóra í viku 38, 19.-25. september 2022

Sem fyrr byrjaði vikan á fundi bæjarráðs. Þó nokkur mál voru á dagskrá og þar á meðal Vallargata 1 á Þingeyri sem gengur undir nafninu Gramsverslun. Áhugasamir aðilar hafa lýst yfir vilja sínum til að taka yfir Gramsverslun og gera hana upp með það fyrir augum að koma upp starfsemi í húsinu. Gramsverslun var byggð árið 1874 og er í mikilli niðurníðslu. Húsið er eitt af elstu húsum Þingeyrar og getur verið sannkölluð bæjarprýði við talsverða upplyftingu. Bæjarráð ákvað að auglýsa húsið, til að gæta janfræðis, og vonandi sjáum við eldhuga taka við því innan tíðar.

Það var líka kynnt erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem greint var frá tillögu kjörnefndar að nýrri stjórn sambandsins. Þar er gerð tillaga um að okkar bæjarfulltrúi, Nanný Arna Guðmundsdóttir, verði í stjórn sambandsins. Þetta eru góðar fréttir fyrir Ísafjarðarbæ og sambandið.

Við Hafdís Gunnarsdóttir, sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs, og Finney Rakel Árnadóttir, formaður fræðslunefndar, áttum góðan fund með framkvæmdastjóra Hjallastefnunnar. Þar ræddum við m.a. leiðir til úrbóta á fallvörnum á Eyrarskjóli ásamt öðrum sameiginlegum málum.

Verkefnastjórn á Flateyri fundaði í vikunni, en við Jóhann Birkir Helgason erum nýir fulltrúar Ísafjarðarbæjar í stjórninni. Þetta verkefni var sett af stað eftir flóðið á Flateyri 2020 og er í anda brothættra byggða verkefnanna. Hjörleifur Finnsson er verkefnastjóri. Verkefnið gengur að mestu vel eftir því sem okkur skilst.

Aðalfundur Blábankans var líka haldinn í vikunni. Þar gengur starfsemin einnig vel og ný stjórn var kosin. Bryndís Ósk Jónsdóttir bæjarritari hefur verið fulltrúi Ísafjarðarbæjar í stjórninni en gengur út (að eigin ósk) og inn kemur Sædís Ólöf Þórsdóttir og Jóhann Birkir til vara. Ég hef alltaf haft sterkar taugar til Blábankans en ég fékk að koma að stofnun hans þegar ég starfaði hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Við Axel Överby, sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs, áttum fund með Félagi eldri borgara, Kubbi íþróttafélagi eldri borgara og Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Þar ræddum við um möguleg afdrif púttvallarins ef kemur til stækkunar á hjúkrunarheimilinu Eyri til vesturs (í átt að Sólborg). Við fundum reglulega með Framkvæmdasýslu ríkisins og heilbrigðisráðuneytinu vegna stækkunarinnar.

Við Bryndís bæjarritari og Axel áttum fund með Agnesi Arnardóttur, verkefnisstjóra Allra vatna til Dýrafjarðar. Þetta eru mánaðarlegir fundir þar sem farið er yfir framgang verkefnisins og þau mál sem snúa að Ísafjarðarbæ. Skipulagsmál og byggingarmál voru fyrirferðarmikil enda góður gangur á Þingeyri, og þá skiptir máli að stjórnsýslan virki.

Ég sótti ársfund Náttúrustofu Vestfjarða (NAVE) fyrir hönd Ísafjarðarbæjar. Það var farið helstu verkefni ársins 2021 og fjármálin að sjálfsögðu sem eru hefðbundnir dagskrárliðir á ársfundi. Ný stjórn var kosin en hana skipa Smári Haraldsson fyrir Bolungarvíkurkaupstað, formaður, Catherine Chambers fyrir Ísafjarðarbæ og Lilja Magnúsdóttir fyrir Tálknafjarðarhrepp. Ársfundurinn ályktaði að framlög til Náttúrustofa verði ekki lækkuð en það er boðað í frumvarpi til fjárlaga. Starfsemin má ekki við að framlögin lækki.


Frá flugslysaæfingu á Ísafjarðarflugvelli.

Stjórn Isavia óskaði eftir fundi með bæjarfulltrúum Ísafjarðarbæjar og Vestfjarðastofu í vikunni. Á fundinum voru líka þeir Arnór Magnússon sem er að ljúka störfum sem umdæmisstjóri Isavia á Vestfjörðum og Páll Janus Hilmarsson sem er að taka við. Það fórum við yfir helstu sameiginlegu málin, t.a.m. staðarval fyrir nýjan flugvöll (þar eru engar góðar fréttir), upphitaðan þyrlupall (ekkert fjármagn komið í það) og margt fleira. Stjórn Isavia var hingað komin til að fylgjast með flugslysaæfingu sem haldin var á laugardaginn. Þar voru æfð viðbrögð við flugslysi á eða við flugvöllinn. Um 200 manns tóku þátt í æfingunni, en það voru Almannavarnir og Isavia sem stóðu fyrir henni. Ég fékk að fylgjast með æfingunni eins og fluga á vegg, sem var mjög áhugavert en ég átti líka mjög erfitt með að trufla ekki leikendur eða viðbragðsaðila.


Frá aðgerðastjórn.

Ég byrjaði daginn á því að kíkja á aðgerðastjórnina sem er með aðsetur á slökkvistöðinni þar til ný aðstaða verður tilbúin í Guðmundarbúð. Æfingin byggði á því að flugvél með 29 farþega og áhöfn um borð hefði farist. Viðbragðsaðilar Ísafjarðarbæjar og nærliggjandi byggðarlögum tóku þátt í æfingunni. Eftir því sem mér skilst þá gekk æfingin mjög vel og liðsheildin var skilvirk og samtaka.


Heiðursverðlaun Gamanmyndahátíðar Flateyrar voru veitt á föstudaginn.

Gamanmyndahátíð Flateyrar fór fram um helgina. Ég fékk þann heiður á föstudagskvöldið að veita heiðursverðlaun hátíðarinnar til Karls Ágústs Úlfssonar. Hann hefur fylgt okkur á skjánum í áratugi, fyrst í myndinni um Jón Odda og Jón Bjarna, svo voru það Líf-myndirnar, sem samfélagsýnir í Spaugstofunni svo eitthvað sé nefnt. Karl Ágúst er ekki bara gamanleikari en hann hefur gefið út fjölmörg ritverk og leikverk. Á Gamanmyndahátíðinni var hann var heiðraður fyrir framlag sitt til gamanmynda. Myndin Dalalíf, þar sem Karl Ágúst fer með annað aðalhlutverkið, var svo sýnd í troðfullum Tankinum á eftir. Eftir myndina spjallaði hann svo við áhorfendur. Dalalíf kom út árið 1984 og hefur elst merkilega vel (þó það séu nokkur atriði sem myndu kannski ekki alveg ganga í dag). Gamanmyndahátíðin er virkilega skemmtilegur og vel heppnaður viðburður.

Árshátíð Ísafjarðarbæjar var haldin með pompi og prakt á laugardagskvöldið. Það hefur ekki verið haldin árshátíð í tvö og hálft ár og var löngu kominn tími á það. Ísafjarðarbær er stærsti vinnustaðurinn á Vestfjörðum og var fjölmennið eftir því. Það var virkilega gaman að hitta svona marga samstarfsmenn en ég hef bara náð að heimsækja örfáa vinnustaði til þessa. Tónlistaratriðin og skemmtiatriðin voru sérstaklega vel heppnuð en Margrét Erla Maack stýrði veislunni með glæsibrag. Ég má til með að nefna Svövu Rún Steingrímsdóttur sem spilaði og söng undir borðhaldi, það sem hún er geggjuð. Eyþór Bjarnason uppistandari átti líka frábært mót. Hljómsveitin Glaumgosar spilaði svo fyrir dansi. Það var sáttur bæjarstjóri sem fauk heim eftir árshátíð.

Svo er það litlu málin sem skipta samt svo miklu máli. Í síðustu viku voru merk tíðindi sem ég hefði mátt geta. Snerpa er búin er að tengja ljósleiðara á Ingjaldssand, og Orkubúið er vinna í rafmagninu.