Vika 19: Dagbók bæjarstjóra 2023

Arna Lára bæjarstjóri, Jeanette Menzies sendiherra Kanada og Bryndís Ósk bæjarritari.
Arna Lára bæjarstjóri, Jeanette Menzies sendiherra Kanada og Bryndís Ósk bæjarritari.

Dagbók bæjarstjóra dagana 8.-14. maí 2023.

Vikan hefur verið nokkuð hefðbundin með fjölbreyttu fundarhaldi og samskiptum.

Jeanette Menzies sendiherra Kanada kom í heimsókn. Það var ánægjulegt að hitta hana en hún hefur verið sendiherra á Íslandi í rúm tvö ár. Hún er mikil útivistarmanneskja og sagði mér frá því að hún hjólaði í kringum Ísland fyrir rúmum tuttugu árum. Geri aðrir betur. Ég geri fastlega ráð fyrir því að við eigum eftir að sjá hana í Fossavatnsgöngunni en hún sagði mér líka frá því að hún hefur verið að skíða með sendiherra okkar Ísfirðinga í Bláfjöllum, Einari Óla. Við ræddum auðvitað líka önnur atriði eins og Norðurslóðamál sem hún hefur sérstakan áhuga á.

Ofanflóðanefnd kom í heimsókn, eftir að hafa farið í vettvangsferð og tekið út þær ofanflóðavarnir sem hér eru. Við erum langt komin með okkar varnir. Það sem eftir er hjá okkur eru endurbættar varnir á Flateyri og sunnanverður Hnífsdalur.

Það var haldin stjórnarfundur í Byggðasamlagi Vestfjarða um málefni fatlaðs fólks til þess eins að samþykkja ársreikning en eftir honum hafði verið beðið með eftirvæntingu, þar sem ekki er hægt að leggja fram ársreikning Ísafjarðarbæjar nema að ársreikningur BsVest liggi fyrir. Þetta er sem sagt komið og ársreikningur Ísafjarðarbæjar loksins klár til að leggja fyrir bæjarráð og bæjarstjórn.

Við Bryndís bæjarritari funduðum með lögreglu, slökkviliði og Heilbrigðisstofnun Vestfjarða til að ræða næstu viðbragðs- og hópslysaæfingar í umdæminu. Það hefur sýnt sig að þessar æfingar eru að skila miklu.


Ása Valdís Árnadóttir, stjórnarformaður Samtaka orkusveitarfélaga.

Orkufundur 2023 var líka á dagskrá vikunnar en yfirskrift fundarins var: Þar sem orkan verður til. Þar er vísað í að nærsamfélögin eigi að fá að njóta ávinnings af orkuframleiðslu í héraði í ríkari mæli. Það er auðvelt að tengja við það. Við fengum að heyra áhugaverð sjónarmið frá Múlaþingi og Skeiða- og Gnúpverjahreppi auk annarra erinda. Það voru Samtök orkusveitarfélaga sem stóðu fyrir fundinum.

Aðalfundur Byggðasafns Vestfjarða var haldinn í vikunni, fámennur en góðmennur. Jóna Símonía dekraði við okkur fundarmenn með dýrindissúpu á meðan hún fór yfir árið 2022 í tölum og máli.


Valagil í Álftafirði.

Ég fékk líka góða heimsókn frá Braga Þór sveitarstjóra í Súðavík. Þar bar hæst félagsþjónustan og sameiginleg hagsmunamál í Djúpinu. Við fengum styrk úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða til að hanna gönguleiðina að Valagili í botni Álftafjarðar. Það er þannig, eins og margir vita, að landið er í eigu Ísafjarðarbæjar en Súðavíkurhreppur fer með skipulagsvaldið, svo þetta er fyrirtaks samstarfsverkefni sveitarfélaganna tveggja.

Stjórnarfundur var í Lánasjóði sveitarfélaga.

Vikan bauð líka upp á fundarstúss í Í-listanum og í Samfylkingunni.