Vika 17: Dagbók bæjarstjóra 2023

Dagbók bæjarstjóra dagana 24. apríl-1. maí 2023.

Tíðindalítil vika að baki. Það var hvorki fundur í bæjarráði né í bæjarstjórn. Vorverkin komin á fullt og búið að blása í ærslabelgina.

Ég átti fund með forsvarmönnum Stöðvarinnar en samningur þeirra við Ísafjarðarbæ rennur út í haust og ræddum við möguleika á áframhaldandi samstarfi.

Starfshópur um þjóðgarð og orkumálum fundaði í vikunni í húsakynnum Bláma í Bolungarvík. Við eigum að skila af okkur til ráðherra í næstu viku þannig að nú þarf að spýta í lófana og klára.

 

Katrín Jakobsdóttir í pontu á fundi um sjálfbært Ísland.
Katrín Jakobsdóttir í pontu á fundi um sjálfbært Ísland.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra boðaði til opins samráðsfundar um sjálfbært Ísland í Edinborgarhúsinu. Þar var fjallað um stöðu sjálfbærni, helstu áskoranir, tækifæri og valkosti til framfara en vinna stendur yfir við mótun stefnu Íslands um sjálfbæra þróun. Afrakstur þessarar vinnu á að leggja grunn að stefnu Íslands um sjálfbærni.

Eyrin á Ísafirði 2023 og fyrir 100 árum.
Eyrin á Ísafirði 2023 og fyrir 100 árum.

Eiríkur Örn rithöfundur hélt áhugavert innlegg á fundinum og vakti fundarmenn til umhugsunar um hvenær nóg væri nóg. Eiríkur birti erindi sitt á Facebook síðu sinni og setti tvær myndir af eyrinni í Skutlsfirði með, en þar mátti sjá hversu eyrin hefur breyst mikið á 100 árum.

Stjórnarfundur í Lánasjóði sveitarfélaga var líka á vikudagskránni.

Rusl plokkað á Sjúkrahústúninu á Ísafirði.
Rusl plokkað á Sjúkrahústúninu á Ísafirði.

Stóri plokkdagurinn var haldinn um helgina og sá ég að samfélagsmiðlum að fjölmargir fóru út að plokka. Ég plokkaði Sjúkrahústúnið og ég veit ekki hversu marga nikótínpúða ég tíndi en þeir voru fjölmargir. Velti fyrir mér hvort það gæti ekki verið sniðug hugmynd að þróa boxin þannig að pláss verði fyrir notuðu púðana, þannig að það verði minni líkur að þeir lendi á jörðinni eftir notkun.

Kröfuganga á 1. maí  á Ísafirði.
Kröfuganga á 1. maí á Ísafirði.

1. maí hátíðarhöldin voru með hefðbundnum hætti í ár; kröfuganga með lúðrasveit Tónlistarskóla Ísafjarðar í fararbroddi, hátíðardagskrá og kaffihlaðborð að hætti Slysavarnadeildarinnar Iðunnar. Auður Alfa frá Alþýðusambandinu hélt fína ræðu þar sem hún gerði yfirskrift dagsins að umfjöllunarefni en hún er réttlæti, jöfnuður og velferð.