Vika 12: Dagbók bæjarstjóra 2023

Dagbók bæjarstjóra dagana 20.-26. mars 2023.

Undirbúningur fyrir páska er hafinn fyrir alvöru með tilheyrandi snjókomu, svokallað páskahret. Nú þegar 10 dagar eru í að Skíðavikan verður sett þá er ekki annað að sjá í kortunum að hægt verði að skíða alla páskana. Rokkhátíðin Aldrei fór ég suður er á sínum stað með flottri dagskrá og virkilega gaman að sjá alla kvenorkuna sem mun sveima yfir hátíðinni í ár.

Annars var vinnuvikan nokkuð hefðbundin sem byrjaði í bæjarráði. Þar var til kynningar fyrir bæjarráði samkomulag við Þrúðheima um greiðslu bóta, milli Ísafjarðarbæjar og Þrúðheima ehf., vegna kæru Þrúðheima ehf til innviðaráðuneytisins. Við lögðum áherslu á strax í upphafi að ná sáttum við Þrúðheima og það tókst. Einhverjir hafa velt fyrir sé hvers vegna svona samkomulag er trúnaðarmál, en það er standard vinnureglan þegar verið er að fjalla um persónu/fjárhagslegar upplýsingar viðsemjanda. Það er ekkert annað sem liggur þar að baki.

Bæjarráð ræddi sölu á Bakkaskjóli í Hnífsdal en nú er búið að slíta í sundur lóðina með leiktækjunum og húsið sjálft. Bæjarráð samþykkti að verja söluverðmætum Bakkaskjóls í önnur húsnæði í eigu bæjarins í Hnífsdal, en þar á bærinn t.d. gamla barnaskólann og félagsheimilið.

Forsvarsmenn sveitarfélaganna á Vestfjörðum og Vestfjarðastofa funduðu með Jöfnunarsjóði til að fara yfir tillögurnar að nýju úthlutunarreglum sem ætlaðar eru til að einfalda kerfið og gera gegnsærra. Tillögurnar hitta sveitarfélög á Vestfjörðum misvel. Ljóst er að nýju tillögurnar koma sér sérstaklega vel fyrir sveitarfélög eins og Ísafjarðarbæ sem er í meðalstæð, fjölkjarna og með flóknar útgjaldaþarfir. Nýju tillögurnar eru líka næmar fyrir fjölda barna. Því fleiri börn, því meira fjármagn.

Ég sat fund sem haldinn var af Fjölmenningarsetri til að kynna móttökuáætlanir sveitarfélaga fyrir flóttafólk. Fjölmenningarsetur er búið að láta útbúa alls kyns gagnleg gögn til að auðvelda sveitarfélögum að taka vel á móti flóttafólki. Þetta á eftir að nýtast okkur vel.

Hafsteinn og Elísabet frá Ofanflóðasjóði mættu vestur í vikunni með Kristínu Mörthu frá Verkís til að kynna fyrir bæjarfulltrúum og starfsmönnum bæjarins frumathugun vegna ofanflóðamannvirkja á Flateyri sem liggja nú fyrir. Einnig stendur til að kynna skýrsluna fyrir íbúum á Flateyri eftir páska. Vonandi verður hægt að byrja á endurbætttum vörnum strax í sumar. Tillagan þarf að fara í gegnum aðalskipulagsbreytingu en það setjum við í forgang svo hægt sé að byrja sem fyrst. Gert er ráð fyrir að verkið geti tekið allt að fjögur ár.

Forsvarsmenn SÁÁ með bæjarstjóra og sviðsstjóra velferðarsviðs.
Forsvarskonur SÁÁ með bæjarstjóra og sviðsstjóra velferðarsviðs.

Ég tók á móti forsvarsmönnum SÁÁ (Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann) sem hófu kynningarherferð sína á Ísafirði. Þau fóru víðs vegar um bæinn að hitta fólk og fyrirtæki, velferðarsvið Ísafjarðarbæjar og fleiri. Þau blésu svo til kvöldvöku með tónlist sem leikin var af Dagnýju Hermanns og Gummi Hjalta, auk þess sem starfsemi samtakanna var kynnt. Mjög vel heppnað.

Jónas sýslumaður við fánaborgina.
Jónas sýslumaður við fánaborgina.

Marga bæjarbúa rak í rogastans þegar öllum þjóðfánum Norðurlandanna var flaggað meðfram Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði á fimmtudagsmorgun. Þar var að verki formaður Norræna félagsins á Vestfjörðum og sýslumaður, Jónas Guðmundsson, sem tók upp á þessu til að minna okkur á dag Norðurlandanna.

Við Axel sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs fundum með Steina í Bláma og Kidda frá Running tide um fráveitumál. Fráveitumálin er einn heitasti málaflokkurinn um þessar mundir. Blámi er heldur betur að simpla sig inn í nýsköpunar- og orkuskiptaumræðuna á Vestfjörðum (og á landinu öllu). Blámi fékk t.a.m. hvatningarverðlaun Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi fyrir frumkvæði og þátttöku í orkuskiptaverkefnum í sjávarútvegi í vikunni. Til hamingju Steini og Tinna!

Starfshópur um orkumál og þjóðgarð á Vestfjörðum fundaði með sveitarstjórnum Vesturbyggðar og Tálknafjarðar.
Starfshópur um orkumál og þjóðgarð á Vestfjörðum fundaði með sveitarstjórnum Vesturbyggðar og Tálknafjarðar.

Ég sat fund með starfshópi um orkumál og þjóðgarð með sveitastjórnum Vesturbyggðar og Tálknafjarðar. Ákveðið var að hafa sameinginlegan fund en sveitarfélögin tvö eru í sameiningarviðræðum. Eins og á öðrum fundum með sveitarfélögum á Vestfjörðum var þessi málefnalegur og líflegur. Ég ætlaði mér að vera á Patreksfirði en Dynjandisheiði var lokuð svo ég sótti fundinn í gegnum Teams.

Ég var gestur á aðalfundi Samfylkingarinnar á Vestfjörðum í vikunni til að ræða bæjarmálin. Það var ræddum við fjármálin, skipulag og húsnæðisuppbyggingu. Mjög góðar umræður.

Framkvæmdastjórar sveitarfélaganna átta á Vestfjörðum sem ætla að vera í samstarfi um velferðarmál funduðu með KPMG til ræða samninginn sem hefur fengið eina og sums staðar tvær umræður í sveitarfélögunum. Þar fórum við sameiginlega yfir þær athugasemdir sem höfðu borist.

Varðskipið Þór dregur Maríu Júlíu frá höfn á Ísafirði.
Varðskipið Þór dregur Maríu Júlíu út úr höfninni á Ísafirði.

Tímamót urðu um helgina björgunarskipið María Júlía sigldi út Skutulsfjörðinn í togi frá varðskipinu Þór á leiðinni í slipp á Akureyri. Margir hafa fylgst með förinni á Marinetraffic og ekki annað að sjá en að ferðin gangi vel. Takk kæra Landhelgisgæslan að láta þetta verða að veruleika!