Vika 10: Dagbók bæjarstjóra 2023

Eljan frá Nesi var smíðuð í Grunnavík árið 1942.
Eljan frá Nesi var smíðuð í Grunnavík árið 1942.

Dagbók bæjarstjóra dagana 6.-12. mars.

Vikan hefur verið vel pökkuð. Upptaktur vikunnar byrjaði sem fyrr í bæjarráði.

Bæjarráð samþykkti að vísa tillögu til samþykktar í bæjarstjórn um að Ísafjarðarbær verði aðili að samræmdri móttöku flóttafólks og taki á móti allt að 40 einstaklingum á árinu 2023 samkvæmt sérstöku samkomulagi við félags-og vinnumarkaðsráðuneytið.

Uppdæling á efni úr Sundunum var á dagskrá bæjarráðs, aftur. Umhverfisstofnun lagðist gegn því að dæla efni í Pollinn og telur að það hafi áhrif á vatnsgæði auk þess sem þetta hefur áhrif á útrásir. Þannig að bæjarráð leggur til að efninu verði varpað við Prestabugt. Samhliða því þarf að gera nýjan garð við Norðurtangann svo við fáum ekki efnið beint inn í Sundin aftur. Garðurinn ætti að virka sem sandfangari og eftir einhvern tímann ætti að verða talsverð sandfjara við Fjarðarstrætið.

Ég fundaði með félagði eldri borgara og íþróttafélaginu Kubbi vegna púttvallarins sem þarf að færa vegna nýrrar álmu við Eyri sem er í undirbúningi, auk þess sem við erum að finna góða staðsetningu fyrir hreystitæki sem bærinn er búinn að kaupa. Við fórum þar yfir nokkrar hugmyndir að útfærslum sem Erla Bryndís hjá Verkís hefur verið að vinna. Heilbrigðisstofnun Vestfjarða hefur verið að vinna þetta með okkur og mun hluti af vellinum fara inn á þeirra lóð. Þetta á eftir að verða mjög flott útivistarsvæði.

Við héldum upplýsinga- og samráðsfund með foreldrum grunnskólabarna á Suðureyri. Það fannst aftur mygla í Grunnskólanum og fórum við yfir stöðuna með foreldrum. Við höfðum Eflufólk með okkur sem eru sérfræðingar í myglu. Þar ræddum við þá möguleika sem við höfum um skipulag skólastarfs á meðan unnið er að endurbótum skólans.

Súpa á fundi stjórnar Byggðasafns Vestfjarða.
Súpa á fundi stjórnar Byggðasafns Vestfjarða.

Það var fundur í stjórn Byggðasafnisins. Jóna Símonía forstöðumaður safnsins dekrar við okkur stjórnarmenn og eldar súpu þegar við komum saman. Ég notaði tækifærið og skoðaði Eljuna sem verið er að laga.

Rannveig Sigurðardóttir aðstoðarseðlabankastjóri með kynningu fyrir stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga.
Rannveig Sigurðardóttir aðstoðarseðlabankastjóri með kynningu fyrir stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga.

Lánasjóður sveitarfélaga fundaði í vikunni í Reykjavík. Flesta fundi tökum við á Teams en þar sem við vorum að samþykkja og árita ársreikning kallaði það á staðfund. Fyrir fundinn fengum við kynningu frá Rannveigu Sigurðardóttur, aðstoðarseðlabankastjóra, sem fór yfir stöðuna í efnahagsmálum. Mjög áhugaverð kynning.


Frá fundi starfshóps um orkumál og þjóðgarð á Vestfjörðum með fulltrúum sveitarfélaga á Ströndum.

Beint eftir lánasjóðsfundinn brunaði ég vestur til að fundar við sveitarfélög á Ströndum með starfshópi um orkumál og þjóðgarð. Ég missti af fundi með Reykhólahreppi, stundum væri ágætt að geta verið á tveimur stöðum í einu. Við funduðum með Strandabyggð, Kaldrananeshreppi og Árneshreppi.

Frá bruggverksmiðjunni Galdri á Hólmavík.
Frá bruggverksmiðjunni Galdri á Hólmavík.

Finnur, oddviti Kaldrananeshrepps bauð okkur að koma skoða nýju bruggverksmiðjuna Galdur sem hann var að setja upp í samstarfi við fleiri. Gaman að sjá hvað nöfnin á bjórunum og brugghúsið eiga sterkar rætur í þjóðtrú og galdra sem Strandamenn eru þekktir fyrir. Það var gaman að koma í Árneshrepp þar sem við fengum sérstaklega góðar móttökur. Nýbakaðar kleinur, kjötsúpa og marengsterta auk góðra umræðna um stöðu orkumála í fjórðungnum.

Afsal af Gramsverslun á Þingeyri undirritað.
Afsal af Gramsverslun á Þingeyri undirritað.

Í Árneshreppi skrifuðum við Kjartan undir afsal af Gramsverslun og er húsið núna komið undir hendur Fasteignafélags Þingeyrar. Þetta er vonandi upphafið að endurreisn þessa fallega húss.