Verkföllum frestað

Samninganefndir Sambands íslenskra sveitarfélaga og samninganefnd fjórtán bæjarstarfsmannafélaga innan BSRB undirrituðu rétt eftir miðnætti nýjan kjarasamning. Félag opinberra starfsmanna á Vestfjörðum er á meðal þeirra stéttarfélaga sem fresta verkfallsaðgerðum, sem annars hefðu hafist á miðnætti 9. mars. 

Í tilkynningu frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga segir að kjarasamningurinn sé gerður í anda Lífskjarasamningsins sem gildir á almennum vinnumarkaði. Verði samningurinn samþykktur mun hann gilda frá 1. janúar 2020 til 31. mars 2023. Einnig segir að nú fari í hönd kynning á og atkvæðagreiðsla um kjarasamninginn meðal félagsmanna bæjarstarfsmannafélaganna. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar mun liggja fyrir þann 23. mars næstkomandi.