Útkomuspá 2023: Rekstrarniðurstaða jákvæð um 311,8 milljónir króna

Útkomuspá Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2023 var kynnt á 1258. fundi bæjarráðs sem haldinn var mánudaginn 9. október.

Niðurstaða útkomuspár er að rekstrarniðurstaða A- og B-hluta verður jákvæð um 311,8 m.kr í árslok 2023. A hluti verður jákvæður um 62,5 m.kr. 

Samþykkt fjárhagsáætlun fyrir 2023 gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu A- og B-hluta upp á 206 m.kr. og jákvæðri niðurstöðu A-hluta upp á 33,9 m.kr. Þrettán viðaukar hafa verið samþykktir á árinu og er sá fjórtándi á leið til samþykktar. Helmingur viðaukanna hefur verið afgreiddur með því að finna þeim svigrúm innan áætlunar og hafa þeir því ekki áhrif á rekstrarniðurstöðuna. Þrír viðaukar eru í vinnslu. Útkomuspáin er reiknuð út frá forsendum samþykkt viðauka 1-14 og ósamþykkt viðaukanna sem eru enn í vinnslu.

Að sögn Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarstjóra, er ástæða til að gleðjast yfir þessari niðurstöðu. „Þetta sýnir að þær aðgerðir sem farið var í síðasta haust eru að skila sér,“ segir Arna. „Við erum þó ekki komin fyrir vind og er mikilvægt að halda vel á spöðunum, þannig tryggjum við meiri rými innviðafjárfestingu næstu ára.“