Úthlutun styrkja til nýsköpunar- og þróunarverkefna á Flateyri

Myndir af styrkhöfum: Óttar Guðjónsson
Myndir af styrkhöfum: Óttar Guðjónsson

Verkefnastjórn á Flateyri hefur úthlutað styrkjum til 15 verkefna sem sótt var um í Þróunarverkefnastjóð til nýsköpunar- og þróunarverkefna á Flateyri. Auglýst var eftir umsóknum 26. ágúst s.l. og rann umsóknarfrestur út 30. september s.l..

Til úthlutunar voru 9 milljónir. Alls bárust 21 umsókn. Heildarumfang verkefna er umsóknir lúta að er um 41,4 milljónir en sótt var um styrki að upphæð um rúmlega 19,4 milljónir. Úthlutað var styrkjum til 15 verkefna tengdum atvinnuuppbyggingu, nýsköpun og samfélagsþróun.

Í rökstuðningi verkefnastjórnar kemur fram að flestar umsóknir hafi fallið vel að markmiðum verkefnsins en eins og gefur að skilja hafi ekki verið til fjármagn til að úthluta til allra verkefnanna í þessari umferð. Reynt var að velja sem fjölbreyttust verkefni og m.a. var stuðst við stigagjöf eftir mat á tilteknum þáttum í takt við markmið og áherslur verkefnisins.

Allt eru þetta verkefni sem verkefnastjórn telur líkleg til árangurs og að þau muni hafa jákvæð áhrif á atvinnulíf og samfélagið á Flateyri.

„Það hefur verið ótrúlega gaman að fylgja þessu verkefni úr hlaði og finna þann kraft og þá einingu sem hér á Flateyri hefur ríkt. Áræðni og þor munu skila styrkhöfum langt og Flateyri ennþá lengra,“ segir Helena Jónsdóttir, verkefnastjóri á Flateyri.

Að sögn Birgis Gunnarssonar, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, kom skemmtilega á óvart hversu margar umsóknir bárust „Verkefnin eru fjölbreytt og hvert öðru áhugaverðara. Það verður spennandi að fylgjast með þróun þeirra og mín trú er að þetta verði mikil lyftistöng fyrir samfélagið á Flateyri.“ 

Fiskvinnslan Hrefna ehf. hlaut styrk til gerðar viðskiptaáætlunar. Hrefna Valdemarsdóttir, framkvæmdastjóri, segist vera afar ánægð og þakklát fyrir að fá þennan styrk. „Hann kemur sér vel í þeirri vinnu sem framundan er í erfiðu árferði í mínu litla fyrirtæki. Ég er mjög spennt að halda áfram og þessi styrkur gerir mér kleift að vinna faglega viðskiptaáætlun sem er lykilþáttur í árangri fyrirtækisins til næstu ára.“

Yfirlit yfir styrkhafa sem hlutu styrk úr Þróunarverkefnasjóði á Flateyri:

  • Félag ferðaþjóna í Önundarfirði - Flateyri allt árið – 500.000 krónur.
  • Fiskvinnslan Hrefna ehf. - Gerð viðskiptaáætlunar 2020-2022 –500.000 krónur.
  • Litlabýli ehf.- Gerð viðskiptaáætlunar 2020-2023 – 500.000 krónur.
  • Sjöfimm ehf. - Glamping Flateyri: lúxus tjaldgisting – 800.000 krónur.
  • Birkir Þór Guðmundsson - Námskeið í bátasmíði – 235.000 krónur.
  • Sæbjörg Freyja Gísladóttir – Ræktun í bala – 234.000 krónur.
  • Ráðgjöf og verkefnastjórnun (RRV ehf.) og Óttar Guðjónsson - Sjóböð í Holti, fýsileikakönnun – 1.000.000 krónur.
  • Guðrún Pálsdóttir – Steinninn - minnisvarði – 250.000 krónur.
  • Sigurður J. Hafberg – Skautasvell – 500.000 krónur.
  • Lýðskólinn á Flateyri – Sumarskóli Lýðskólans á Flateyri – 800.000 krónur.
  • Litlabýli ehf. – Teikning og hönnun vegna stækkunar Litlabýlis – 500.000 krónur.
  • Margeir Haraldsson – Trimblur á tromblunum 1 & 2 – 200.000 krónur.
  • Ön ehf. – Gerð viðskiptaáætlunar 2020-2022 – 500.000 krónur.
  • Skúrin samfélagsmiðstöð ehf. - Skúrin suðupottur – 500.000 krónur.
  • Hús og fólk - Sögur úr sjávarbyggð: Rafræn leiðsögn um Flateyri og Önundarfjörð – 500.000.