Uppfærðar reglur um notkun byggðarmerkis Ísafjarðarbæjar

Menningarmálanefnd samþykkti á 169. fundi sínum þann 18. september að leggja til við bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar að samþykkja uppfærðar reglur um notkun byggðarmerkis Ísafjarðarbæjar.

Markmið reglnanna er að samræma og skýra heimild til notkunar á byggðarmerkinu en merkið er skráð í byggðarmerkjaskrá Hugverkastofu sem veitir sveitarfélaginu einkarétt á notkun þess.

Í uppfærðu reglunum er meðal annars kveðið á um hvernig og hvar má og á að nota merkið, í hvaða hlutföllum og hvernig útfæra má merki fyrir stofnanir bæjarins. Þá hefur greinin um notkun merkisins á söluvarningi verið gerð skýrari. Þar segir: 
„Óski einstaklingar eða lögaðili eftir því að framleiða varning með merkinu eða merkið sjálft í einhverju formi og hafa til sölu þarf til þess leyfi bæjarstjóra eða staðgengils hans hverju sinni.

Lögð er áhersla á að byggðarmerkið njóti sín með smekklegum hætti eftir því sem við á hverju sinni.
Sé heimild veitt skal merkið standa eitt á söluvarningi, þ.e. ekki með myndum, teikningum eða öðrum texta en nafni sveitarfélagsins.

Óheimilt er að nota merkið sem hluta af firmamerki eða vörumerki.“

Reglurnar verða lagðar fram til samþykktar í bæjarstjórn í byrjun október.