Umsögn Ísafjarðarbæjar um breytingar á sveitarstjórnarlögum

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar leggur til að frumvarp um breytingar á sveitarstjórnarlögum verði lagfært eða skýrt betur, meðal annars þegar kemur að sameiningu smærri sveitarfélaga, heimastjórnum og Jöfnunarsjóði. Þetta kemur fram í umsögn sem bæjarstjóri, Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, sendi inn í samráðsgátt fyrir hönd sveitarfélagsins.

Frumvarpið felur meðal annars í sér breyttar reglur um fundi og hæfi fulltrúa og ákvæði um aukið íbúasamráð. Þá gefur það ráðherra heimild til að hafa frumkvæði að sameiningu fámennra sveitarfélaga, auk þess sem settir eru skýrari rammar um heimastjórnir og samstarfsform. Einnig eru sett ítarlegri ákvæði um fjármál, langtímastefnu og eftirlit ríkisins með sveitarfélögum.

Í umsögn Ísafjarðarbæjar kemur fram að bæjarráð fagni frumvarpinu, en bendir á að nokkur atriði þarf að skýra eða lagfæra:

Sameining smærri sveitarfélaga

Í frumvarpinu er lagt til að ráðherra hafi frumkvæði að sameiningu sveitarfélaga með færri en 250 íbúa. Ísafjarðarbær tekur ekki afstöðu með eða á móti þessari reglu, en bendir á tvö álitaefni:

  • Að ekki sé tryggt að aðliggjandi sveitarfélög, sem taka ættu við íbúum hins smærra, hafi raunverulegt svigrúm til afstöðu.
  • Að fyrirhuguð tímalína – sameining fyrir sveitarstjórnarkosningar 2026 – sé afar knöpp og geti torveldað farsæla sameiningarvinnu.

Heimastjórnir

Bæjarráð lýsir áhyggjum af því að í frumvarpinu sé lágmarksíbúafjöldi heimastjórna markaður við 250 manns. Slíkt gæti útilokað byggðakjarna innan Ísafjarðarbæjar, svo sem Hnífsdal og Flateyri, frá því að fá eigin heimastjórn þrátt fyrir sérstöðu í málefnum og þjónustu.

Einnig sé ósamræmi milli ákvæða um heimastjórnir annars vegar í skyldubundnum sameiningum og hins vegar í almennum reglum. Bæjarráð leggur til að sveitarfélögum verði veitt frjálsari heimild til að setja upp heimastjórnir eftir sínum þörfum, án fyrirfram skilgreindra viðmiða um íbúafjölda eða vegalengdir.

Jöfnunarsjóður

Bæjarráð bendir á misræmi milli frumvarpsins og nýsamþykktra laga um Jöfnunarsjóð, þar sem er greitt álag til fjölkjarna sveitarfélaga, en þó ekki vegna fleiri kjarna en þriggja. Þetta rímar ekki við tillögu um sameiningar í gisnum byggðum. Eftir því sem flatarmál sveitarfélaga stækkar og vegalengdir lengjast minnkar stærðarhagkvæmni, þar sem halda þarf úti sjálstæðri þjónustu á hverju þjónustusvæði. Samhliða breytingum á sveitarstjórnarlögum þyrfti því að gera breytingar á reikniverki Jöfnunarsjóðs.

Að endingu tekur bæjarráð tekur undir umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um þann kafla frumvarpsins sem snýr að fjármálum.

Umsögn Sambandsins