Tillaga um þéttingu byggðar í miðbæ Ísafjarðar
Bæjarráð hefur samþykkt tillögu um að farið verði í breytingu á aðalskipulagi með það að markmiði að þétta byggð í miðbæ Ísafjarðar og að breyta legu og framlengja Pollgötu.
Breytingin byggir á tveimur valkostum sem settir hafa verið fram um uppbyggingu á Eyrinni:
Valkostur A um þéttingu byggðar á Eyrinni þar sem gert er ráð fyrir að hægt verði að byggja allt að 100 íbúðir á núverandi landi, án þess að fara í landfyllingu. Mesta þéttingin verður við Pollgötu.
Valkostur B um færslu Pollgötu fyrir neðan Edinborgarhúsið, til að bæta umferðarstýringu frá Suðurtanga.
Samkvæmt tillögunni verða göngu- og hjólaleiðir í miðbænum bættar til muna. Gert er ráð fyrir nýjum stíg, sjávarmegin við Pollgötu, sem eykur umferðaröryggi gangandi og hjólandi vegfarenda. Þá verða sjóvarnir við Pollgötu bættar. Með breytingunni eykst aðgengi að Pollinum, með útsýnisstöðum og útivistarbryggjum. Litið verði til möguleika á bryggjuhverfi við höfnina og uppfyllingu frá Edinborgarhúsi að Stjórnsýsluhúsi með möguleika á bryggju og göngutengingu við Silfurtorg.
Næsta skref er að útbúa vinnslutillögu sem verður kynnt fyrir almenningi og þá gefst færi á að senda inn athugasemdir.
Hægt er að kynna sér nánar valkostagreiningu Verkís:
Uppbygging íbúðarbyggðar á Skutulsfjarðareyri – Greining á valkostum
