Tilkynning frá skóla- og tómstundasviði: Öðruvísi haust að hefjast

Nú er skemmtilegasti tími ársins að hefjast, skólastarfið í leik- og grunnskólum að fara á fullt með öllu því skipulagi sem fylgir fyrir nemendur, foreldra og starfsfólk.

Vegna Covid-19 hefur þurft að skipuleggja skóla- og frístundastarf haustsins á annan hátt en verið hefur. Starfsfólk er reynslunni ríkari eftir áskoranir vorsins og verður byggt á þeim leiðum og lausnum sem nýttar voru þá. Covid-19 hafði ekki bara áhrif á skólastarf, það hafði einnig áhrif á tómstundir bæði barna og fullorðinna, setti daglega rútínu úr skorðum og urðu allir að leggjast á eitt í okkar góða samfélagi að virða og fara eftir tilmælum almannavarna.

Mikilvægt er að við höldum áfram að virða og vinna eftir tilmælum sóttvarnarlæknis. Skóla- og tómstundastarf er okkur öllum þýðingarmikið og því full ástæða til að fylgja tilmælum til hins ítrasta svo það geti blómstrað eins og hægt er.

Í dag vinnur starfsfólk eftir 1 metra reglunni í skólastofnunum Ísafjarðarbæjar. Börn fædd 2005 og síðar eru undanþegin reglunum, þau mega vera í samneyti og samskipum án takmarkana. Það auðveldar skólastarfið en jafnframt þarf að gæta að einstaklingssóttvörum sem verða áberandi í stofnunum okkar.

Sóttvarnir í íþróttahúsum og sundlaugum vinnast eftir leiðbeiningum frá sóttvarnarlækni. Börn sem eru fædd 2005 og síðar sinna sínum tómstundum eins og þau eru vön en eldri iðkendur þurfa að lúta harðari viðmiðum. Íþróttafélögin hafa unnið að útfærslu með aðildarfélögum sínum sem þau munu kynna fyrir iðkendum. Mikilvægt er að allir vinni saman og hjálpist að við að virða sóttvarnir íþróttahúsa og sundlauga í Ísafjarðarbæ.

- Stefanía Helga Ásmundsdóttir -
Sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs Ísafjarðarbæjar