Þinggerð og ályktanir Fjórðungsþings Vestfirðinga

Þinggerð og ályktanir 68. Fjórðungsþings Vestfirðinga, sem var haldið í Bolungarvík 6.-7. október voru lagðar fram á 1260. fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar.

Alls sendi þingið frá sér 14 ályktanir:

  • Samgöngur út frá ímynd Vestfjarða
  • Jarðgöng á Vestfjörðum
  • Orkumál — Vestfirðir úr biðflokki í verkefnaflokk
  • Gerð loftslagsstefnu
  • Endurmat ofanflóðahættu
  • Ljósleiðaravæðing á Vestfjörðum
  • Jöfnun kostnaðar vegna flokkunar og förgunar úrgangs
  • Gerð viðbragðsáætlana vegna ofanflóða
  • Samfélag og menning
  • Menntastefna Vestfjarða
  • Öryggisnet viðbragðsaðila á Vestfjörðum
  • Málefni Heilbrigðiseftirlits Vestfjarðasvæðis
  • Lagareldi
  • Skipting gjalds vegna fiskeldis í sjó

Ályktunin um samgöngur út frá ímynd Vestfjarða er sú lengsta af þessum 14, en þar er því beint til yfirvalda samgöngumála að skoðaðar verði nýjar fjármögnunarleiðir til að jafna
samkeppnisstöðu Vestfjarða í samgöngumálum. Einnig að auka þegar á árinu 2023 fjármagn til vetrarþjónustu og viðhalds vega á Vestfjörðum til að bæta ásýnd Vestfjarða til búsetu, fjárfestinga og heimsókna.

Ályktunin um jöfnun kostnaðar vegna flokkunar og förgunar úrgangs beinir því til stjórnvalda að jafna flutningskostnað úrgangs sem fellur til í sveitarfélögum sem eru langt frá urðunar-, móttöku- og förgunarstöðum, við þau sem eru í nálægð við slíka staði. Breytingar á lögum vegna meðhöndlunar úrgangs gerir sveitarfélögum skylt að innheimta gjald sem næst raunkostnaði við þjónustu um meðhöndlun úrgangs. Sveitarfélög sem eru bæði dreifbýl og langt frá móttökustöð standa höllum fæti þegar kemur að kostnaði af meðhöndlun úrgangs. 

Í ályktuninni um Menntastefnu Vestfjarða segir meðal annars að þekkingarstig íbúa Vestfjarða er einn helsti drifkraftur þróunar á svæðinu. Einnig að drög að menntastefnu innihaldi metnaðarfulla framtíðarsýn sem sveitarfélögin sammælast um að innleiða og nýta við mótun skólastefnu fyrir hvert sveitarfélag. Drögin hafa nú verið kynnt í bæjarráði.

Ályktanir 68. Fjórðungsþings Vestfirðinga

Þinggerð 68. Fjórðungsþings Vestfirðinga