Suðureyri: Tenging nýrrar vatnslagnar gekk vel

Klukkan 21 í gær, 13. september, var klárað að tengja nýja vatnslögn við vatnstank á Suðureyri. Samkvæmt upplýsingum frá Kristjáni Andra Guðjónssyni, forstöðumanni áhaldahúss, gekk tengivinna vel og nýja lögnin skilar góðu innstreymi í vatnstankinn sem þýðir að ekki þarf lengur að keyra vatn yfir á Suðureyri.

„Eins og staðan er í dag virðist allt vera farið að virka eðlilega, innstreymi er komið í 62 rúmmetra á klukkustund en var komið niður í 30 þegar það var sem minnst,“ segir Kristján.

Enn á eftir að klára verkefnið varðandi lekann sem talinn er vera á lögn á svæði sem afmarkast af Eyrargötu, Skólagötu, Stefnisgötu og Rómarstíg. Áætlað er að fara í þá vinnu á næstu dögum.