Suðureyri: Staða á vatnsmálum

Eins og flestir íbúar vita hefur verið viðvarandi vatnsskortur á Suðureyri með tilheyrandi röskun á afhendingu vatns. Fyrst byrjaði að bera á vatnsskorti í júní en smám saman versnaði ástandið eftir því sem leið á sumarið. Starfsmenn Ísafjarðarbæjar nýttu hlustunartæki við lekaleit með aðstoð verktaka og Orkubúi Vestfjarða í júlí. Þá voru fjórar holur grafnar í Eyrargötu en enginn leki fannst.

Í síðustu viku var sérfræðingur frá Verkís fenginn til að þrýstiprófa lögnina á svæði sem afmarkast af Eyrargötu, Skólagötu, Stefnisgötu og Rómarstíg. Ekki fannst leki í lögninni við þessa aðgerð en á svæðinu greindist samt sem áður of mikið útflæði.

Þriðjudaginn 16. ágúst var gerð prófun á innflæði og útflæði með því að skrúfa fyrir alla kranana í þorpinu og opna svo fyrir eina götu aftur í einu. Útflæði mældist eðlilegt í öllum götum nema á fyrrnefndu svæði. Næsta skref er að setja krana á lagnirnar í Eyrargötu, Stefnisgötu og Skólagötu til þess að afmarka frekar svæðið sem mögulegur leki getur verið á. Þetta getur tekið tíma þar sem kranarnir þurfa að koma að sunnan og svo þarf að grafa til að setja kranana á.

Þangað til komist verður fyrir lekann getur áfram gerst að loka þarf fyrir vatn í ákveðnum götum á Suðureyri. Íbúar eru beðnir afsökunar á þeim óþægindum sem þessu fylgir.

Fyrirtæki á svæðinu hafa verið upplýst um gang mála og aðstoðað við að minnka vatnsnotkun.

Við þetta má bæta að fyrsti áfangi í vinnu við stækkun lagnar úr Staðardal stendur yfir og ákveðið hefur verið að bæta einni lögn við sem tilheyrir öðrum áfanga nú þegar og er þá búið að vinna í haginn fyrir næsta sumar þegar farið verður í annan áfanga.