Suðureyri: Ráðist í aðgerðir til að bæta umferðaröryggi við skólann

Bláa svæðið sýnir fyrirhugaða vistgötu og gulu örvarnar sýna stefnu akandi umferðar.
Bláa svæðið sýnir fyrirhugaða vistgötu og gulu örvarnar sýna stefnu akandi umferðar.

Bæjarráð hefur lagt til við bæjarstjórn að samþykkja að gera hluta Túngötu á Suðureyri að vistgötu, nánar til tekið frá gatnamótum Túngötu og Sætúns að Túngötu 6. Einnig verður sett upp einstefna til að mynda nokkurs konar hringakstur við skólann. Þannig er akstur og aðkoma akandi að skólanum einfaldaður. Er þetta gert til að tryggja sem best öryggi barna á svæðinu í kringum Grunnskólann á Suðureyri, íþróttamiðstöðina og leikskólann Tjarnarbæ. 

Tillaga um að bæta umferðaröryggi við skólann barst meðal annars frá hverfisráðinu á Suðureyri,  en hraðakstur hefur verið um Túngötuna, að og frá skóla úr tveimur áttum. Einnig var talin þörf á að bæta öryggi vegna bílastæða við skólann, þar sem bílar fara inn í og bakka út úr stæðum á sama tíma og verið er að stöðva við skólann til að hleypa börnum út. Slysahætta aukist svo enn frekar þegar myrkur og snjór er á svæðinu.

Skólastjórar leik- og grunnskólanna á Suðureyri tóku vel í fyrirhugaðar aðgerðir í umsögn sinni. Þar segir meðal annars: „Okkur er í mun að gæta öryggi allra barna sem koma í skólana og teljum því vistgötu góða hugmynd, ásamt því að gera hringakstur þannig að engin hætta sé á því að bakkað verði á nemendur eða starfsfólk.“ Einnig kemur fram í umsögninni að með því að gera vistgötu á svæðinu milli grunnskólans og leikskólans verði hægt að tengja skólana betur saman sem eina heild og mynda öruggt svæði á milli þeirra.

Lögreglan á Vestfjörðum hefur tekið út svæðið og samþykkt fyrirhugaðar breytingar.

Tillaga bæjarráðs verður tekin til afgreiðslu í bæjarstjórn fimtudaginn 21. september.