Strandsvæðisskipulag Vestfjarða: Einhugur í bæjarstjórn um friðun á Jökulfjörðum

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti einróma umsögn um tillögu svæðisráðs um strandsvæðisskipulag fyrir Vestfirði á 497. fundi sínum sem fram fór fimmtudaginn 1. september.

Umsögnin tekur á fjölmörgum þáttum tillögunnar en í máli bæjarfulltrúa á fundinum kom fram að einn mikilvægasti þáttur umsagnarinnar er staðfesting á vilja bæjarstjórnar um að Jökulfirðirnir verði friðaðir. Í umsögninni kemur fram að bæjarstjórn telur mikilvægt að haldið verði í og hlúð að þeirri óbyggðaupplifun sem kostur gefst á í Jökulfjörðum og Hornstrandafriðlandinu og sér bæjarstjórn mikil sóknarfæri í hófsamri og umhverfisvænni ferðamennsku á svæðinu.

„Þetta er þriðja bæjarstjórnin í röð sem er einhuga um að Jökulfirðirnir skulu friðaðir. Það er ánægjulegt að um þetta sé þverpólitísk samstaða,“ segir Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar. 

„Strandsvæðisskipulag er brautryðjandaverkefni á landsvísu sem unnið er að frumkvæði Vestfirðinga og sú krafa hefur meðal annars komið skýrt fram á fjórðungsþingum Vestfirðinga allt frá árinu 2010. Það er því fagnaðarefni að sjá skipulagið verða að veruleika.“

Að sögn Örnu er áríðandi að ólíkir hagsmunir þeirra sem nýta og njóta svæðanna sem falla undir skipulagið fái að koma fram og að um þá náist sátt. „Það er einnig mikilvægt að skipulagið gildi í ákveðinn tíma, líkt og aðalskipulag, svo hægt sé að endurskoða það með reglubundnum hætti og þróa það áfram í takti við tækniframfarir og mögulegar breyttar forsendur.“

Í umsögn sinni leggur bæjarstjórn til að flokknum Staðbundin nýting, sem skilgreinir reiti fyrir fiskeldi, skeldýrarækt, efnistöku og ræktun og slátt sjávargróðurs, verði skipt upp þannig að reitir fyrir eldi fiska í opnum kvíum séu skilgreindir sérstaklega og önnur staðbundin nýting leyfð víðar, að uppfylltum þeim skilyrðum sem fjalla um hvern nýtingarflokk fyrir sig, eða að friðanir verði endurskoðaðar með ákvæðum um að fiskeldi verði þó ekki leyft. Ástæðan fyrir þessari tillögu bæjarstjórnar er að af þessum nýtingarflokkum er fiskeldi mun umdeildara en hinir flokkarnir, þar sem eru sjónarmið um ofauðgun, úrgang, erfðablöndun og sjónmengun, sem gildir síður um skeldýrarækt, efnistöku og ræktun og slátt sjávargróðurs.

Í greinargerð strandsvæðisskipulags segir: „Í strandsvæðisskipulagi, í tengslum við verndaráform, er tilefni til að taka afstöðu til þess hvort takmarka þurfi umferð skemmtiferðaskipa á viðkvæmum svæðum eins og við fuglabjörg.“ Í umsögn bæjarstjórnar er tekið undir að tilefni er til að fjalla um umferð skemmtiferðaskipa í greinargerðinni og skipulaginu, en það er ekki gert í skipulagstillögunni sjálfri og því þurfi að bæta úr því.

Bæjarstjórn hvetur einnig til þess að skipulagið fjalli um myrkurgæði og ljósmengun, einkum á þeim svæðum sem leyfa staðbundna nýtingu. Skoða þurfi hvort hægt sé að stuðla að því að ekki logi ljós umfram það sem þarf við vinnu og til að viðhalda öryggi.

Einnig er í umsögninni gerð athugasemd við vinnuferli skipulagsins, en heppilegra hefði verið ef íbúar hefðu fengið aðkomu að gerð skipulagsins fyrr, með opnum fundum á fyrstu stigum vinnunnar eins og jafnan er gert við skipulagsvinnu sveitarfélaga.

Umsögn bæjarstjórnar í heild


Skipulagssvæði strandsvæðisskipulags Vestfjarða nær yfir firði og flóa frá Bjargtöngum í suðri og að Straumnesi í norðri. Mörk skipulagssvæðisins til lands eru við netlög, 115 m út frá stórstraumsfjöruborði.

Skjöl úr yfirstandandi ferli má nálgast á www.hafskipulag.is