Sorpmál: Hvaða breytingar verða um áramótin

Um áramótin tekur gildi breyting á lögum um meðhöndlun úrgangs með það að markmiði að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis. 

Íbúar eru skiljanlega forvitnir um hvaða breytingar verða hjá þeim þegar nýju lögin taka gildi og hér að neðan er leitast við að svara helstu spurningum um þær breytingar sem verða strax á nýju ári. Breytingar er varða gjaldskrá hafa verið teknar saman í sérstakri frétt.

 

 

 

 Breytist flokkun sorps hjá mér?

Hjá hinum almenna íbúa breytist flokkun lítið, að því undanskildu að á árinu 2023 verður óheimilt að setja málma með plastinu í endurvinnslutunnuna. Þeim skal skilað í gám á grenndar-, söfnunar- eða móttökustöð.

Grenndargámum verður fjölgað til að geta tekið á móti málmi, gleri, textíl og skilagjaldsskyldum umbúðum. Íbúar munu fá sérstakan bækling um þessa breytingu þegar hún tekur gildi.

Pappír, pappi og plast fer áfram í endurvinnslutunnuna og lífúrgangur og blandaður úrgangur í hina tunnuna. Ekki má blanda úrgangstegundum saman.


Hvar eru grenndargámar staðsettir?

Grenndargámar fyrir gler eru staðsettir á eftirfarandi stöðum:

  • Landsbankaplaninu á Ísafirði
  • Við Bónus á Skeiði
  • Við hafnarvog á Suðureyri
  • Við sundlaug á Flateyri
  • Við sundlaug á Þingeyri

Gámum verður fjölgað til að hægt verði að flokka textíl og málma auk glers.


Hvað gerist ef ég flokka ekki, eða flokka illa?

Ef þú flokkar ekki mun sorphirðufólk setja viðvörunarmiða á tunnuna þína. Ef slæm flokkun heldur áfram mun tunnan þín ekki verða tæmd fyrr en þú kemur flokkuninni í lag.

Þegar búið er að laga flokkunina getur þú beðið eftir næsta reglulega hirðingardegi eða óskað eftir aukahirðngu og greiðir þá fyrir það skv. gjaldskrá.

Sama á við ef aðgengi að tunnum er slæmt, til dæmis ef þú mokar ekki snjó frá tunnunni, bindur hana fasta þannig að ekki er hægt að losa hana, leggur bílnum þínum fyrir tunnuna þannig að ekki er hægt að komast að henni, tunnan er full af meindýrum/möðkum eða ef þú fylgir ekki öðrum reglum í samþykkt Ísafjarðarbæjar um meðhöndlun úrgangs.


Hvar er móttökustöð og söfnunarstöð?

Móttökustöð Ísafjarðarbæjar heitir Funi, og er í Engidal í Skutulsfirði. Rekstraraðilar geta farið með sinn úrgang þangað gegn gjaldi. Íbúar greiða fyrir blandaðan/grófan úrgang og timbur, skv. gjaldskrá. Þar er tekið við öllum flokkum úrgangs. Eftir áramót verður opið í Funa alla virka daga kl. 10-12 og 13-18 og á laugardögum kl. 12-16.

Íbúar á Flateyri, Suðureyri og Þingeyri geta losað sig við umframmagn heimilissorps auk eðlilegs magns úrgangs frá tiltekt á söfnunarstöðvum eftir tímatöflu hér að neðan. Gjaldskylt er vegna framkvæmda, s.s. gler, múrbrot án járnabindingar og jarðvegur. Gámabílar koma á söfnunarstöðvarnar á Flateyri, Suðureyri og Þingeyri samkvæmt eftirfarandi áætlun:

Flateyri
Þriðjudagur 15-16
Fimmtudagur 15-16 frá 1. júní til 31. ágúst
Laugardagur 13-14

Suðureyri
Þriðjudagur 16-17
Fimmtudagur 16-17 frá 1. júní til 31. ágúst
Laugardagur 14-15

Þingeyri
Þriðjudagur 13-14
Fimmtudagur 13-14 frá 1. júní til 31. ágúst
Laugardagur 11-12


Ég bý í fjölbýli, hvaða breytingar verða hjá mér?

Sorpgeymslur eru almennt í sameign fjöleignarhúsa og bera eigendur allir óskipta ábyrgð á sameigninni. Húsfélagið og eigendur bera ábyrgð á sameiginlegum kostnaði og því ábyrgð á kostnaði sem hlýst af rangt flokkuðum úrgangi.

Sannist að einn eigandi sé að valda húsfélaginu kostnaði með því að flokka ekki úrganginn getur húsfélagið endurkrafið hann um kostnaðinn samkvæmt almennum reglum kröfuréttar. Húsfélag getur einnig sett húsreglur sem ná til flokkunar á úrgangi. Sannist það að einn eigandi fari ítrekað ekki eftir reglunum þá getur húsfélagið lagt bann við búsetu eða dvöl hans í húsinu.

Nánari útlistun á réttindum og skyldum eiganda má nálgast í lögum um fjöleignarhús.

Í fjölbýli þarf meirihluti eigenda að óska eftir öllum breytingum á sorphirðuílátum. Þau gjöld sem greidd eru fyrir sorphirðuna fara nefnilega eftir fjölda og tegundum tunna og því hafa slíkar breytingar áhrif á alla íbúa hússins.

Ef þú býrð í smærra fjölbýli þar sem er ekki starfandi hússtjórn dugar tölvupóstur íbúa um að þeir séu sammála um breytingarnar.

Hússtjórn þarf að óska eftir breytingum sem hafa áhrif á gjöld fyrir meðhöndlun úrgangs með því að senda póst á sorphirda@isafjordur.is.


Hvernig skiptist kostnaðurinn milli íbúa í fjölbýli?

Ísafjarðarbæ ber samkvæmt lögum að innheimta gjald vegna söfnunar á heimilisúrgangi og rekstri grenndar- og endurvinnslustöðva og er fjárhæð gjaldsins skilgreint í gjaldskrá fyrir meðhöndlun úrgangs í Ísafjarðarbæ sem innheimt eru með fasteignagjöldum. Gjöldum fyrir heimilissorp í fjöleignarhúsi er skipt eftir hlutfallstölu eigenda í viðkomandi sameign og er hlutfallstalan byggð á flatarmáli eignarhluta hvers eigenda.

Ísafjarðarbær getur ekki hagað innheimtu sorphirðugjalda með öðrum hætti að ósk íbúa. Í 46. gr. fjöleignarhúsalaga segir að húsfélög fjöleignarhúsa geti ákveðið aðra skiptingu sameiginlegs kostnaðar en hlutfallslegri skiptingu. Ísafjarðarbær hefur enga aðkomu að slíku samkomulagi og hefur slíkur samningur ekkert gildi gagnvart sveitarfélaginu, heldur er um einkaréttarlegan samning að ræða innan húsfélags.