Skipulagslýsing: Stækkun Mjólkárvirkjunar

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti þann 19. janúar 2023 að skipulagslýsing vegna áforma um stækkun Mjólkárvirkjunar og afhendingu grænnar orku, verði kynnt opinberlega skv. skipulagslögum 123/2010. Matslýsingin verði tekin til meðferðar í samræmi við VII. og VIII. kafla skipulagslaga nr. 123/2010 og er unnin í samræmi við lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021.

Markmið aðalskipulagsbreytingarinnar eru eftirfarandi: 

  • Að heimila aukna nýtingu vatnsafls á vatnasviði Mjólkár og þar með auka raforkuframleiðslu Mjólkárvirkjunar og bæta afhendingar-öryggi raforku á Vestfjörðum.
  • Að skapa aðstöðu fyrir afgreiðslu og framleiðslu á endurnýjanlegu eldsneyti við Mjólkárvirkjun.
  • Að skapa betri aðstöðu fyrir báta við ferjubryggju í Arnarfirði.

Óskað er eftir ábendingum og athugasemdum við skipulagslýsinguna og skulu þær sendar á netfangið skipulag@isafjordur.is eða bréfleiðis á Ísafjarðarbæ, Hafnarstræti 1, 400 Ísafirði, fyrir 22. febrúar 2023.

Skipulagslýsingin

Skipulagslýsing
Í upphafi vinnu að skipulagi tekur skipulagsnefnd sveitarfélags saman lýsingu fyrir skipulagsverkefnið þar sem gerð er grein fyrir tildrögum skipulagsvinnunnar og hvernig fyrirhugað er að standa að skipulagsgerðinni. Lýsingin er þannig eins konar verkáætlun fyrir skipulagsgerðina.

Lýsingin er kynnt opinberlega og almenningur fær rödd í skipulagsvinnunni. Samtímis er leitað umsagnar Skipulagsstofnunar og annarra umsagnaraðila.

Helsta markmið skipulagslýsingar er að íbúar og aðrir hagsmunaaðilar, þ.á.m. stjórnvöld, stofnanir og fagaðilar með sérþekkingu á hinum ýmsu sviðum, fái tækifæri til að kynna sér áformin strax í upphafi og geti þannig komið á framfæri athugasemdum og ábendingum um nálgun við áætlunargerðina, viðfangsefni hennar og helstu forsendur.