Skipulagskynningar og athugasemdir í gegnum nýja Skipulagsgátt

Mynd: Skipulagsstofnun
Mynd: Skipulagsstofnun

Skipulagsstofnun hefur tekið í notkun Skipulagsgátt, nýjan vef fyrir skipulagsmál, umhverfismat og framkvæmdarleyfi. Frá 1. júní 2023 munu öll mál sem varða skipulagsáætlanir, umhverfismat og útgáfu framkvæmdaleyfa verða birt í gáttinni.

Skipulagsgátt er landfræðileg gagna- og samráðsgátt um skipulag, umhverfismat og framkvæmdir. Þar er hægt að finna upplýsingar um öll mál í vinnslu, sjá hvar þau eru stödd í skipulagsferlinu, setja fram athugasemdir og ábendingar við mál á kynningartíma og nálgast endanleg gögn og afgreiðslur. 

Eitt af markmiðum Skipulagsgáttarinnar er að einfalda og auka aðgengi að gögnum við gerð skipulags og undirbúning framkvæmda. Þannig geta almenningur, umsagnaraðilar og allir sem láta sig mál á þessum sviðum varða kynnt sér þau með skilvirkari hætti og komið á framfæri umsögnum eða athugasemdum sínum milliliðalaust.

Í gáttinni er kortasjá þar sem öll mál eru skráð með staðsetningu. Í kortasjánni er auðvelt að leita uppi mál í næsta umhverfi en einnig býður kortasjáin upp á að sía mál út frá tegund, hvar það er statt í skipulagsferlinu auk helstu efnisatriða. Einnig er hægt að vakta mál út frá hnitum ákveðinnar staðsetningar.

Íbúar Ísafjarðarbæjar eru hvattir til að kynna sér Skipu­lags­gátt­ina en þar er einmitt nú þegar eitt mál frá sveitarfélaginu komið í kynningu, lýsing vegna deiliskipulags miðbæjar Ísafjarðar.