Skemmtiferðaskip: Samantekt við lok tímabilsins
Skemmtiferðaskipatímabilinu 2025 er formlega lokið, en síðasta skemmtiferðaskip ársins kom til Ísafjarðar í byrjun vikunnar. Það var skipið Vasco de Gama á vegum útgerðarfélagsins Nicko Cruises, en líklega hefur aldrei áður komið skemmtiferðaskip í hafnir Ísafjarðarbæjar svo seint á árinu. Þar sem tímabilinu er lokið er nú hægt að taka saman helstu tölur og uppgjör skemmtiferðaskipaársins.
188 skemmtiferðaskip komu til hafna Ísafjarðarbæjar árið 2025. Langflest skipanna komu til Ísafjarðar, en þrjú til Þingeyrar. Sex skip afbókuðu komu sína. Fjöldi gesta var samtals 247.160 manns. 20 skip lágu við akkeri, þar af öll sem fóru til Þingeyrar, en restin lagðist upp að bryggju.
Áætluð hafnargjöld vegna komu skemmtiferðaskipa eru tæpar 854 milljónir króna. Í meðfylgjandi töflu má sjá yfirlit yfir fjölda skipa og farþega á árinu, eftir mánuðum, samanborið við síðasta ár. Áætluð hafnargjöld eru í dálkunum lengst til hægri.
|
Fjöldi skipa |
Fjöldi farþega |
Áætluð hafnargjöld |
||||
|
2025 |
2024 |
2025 |
2024 |
2025 |
2024 |
|
|
Maí |
18 |
9 |
22.980 |
16.052 |
88.359.683 |
52.795.062 |
|
Júní |
34 |
46 |
44.784 |
50.751 |
156.087.172 |
167.784.245 |
|
Júlí |
67 |
68 |
87.078 |
87.603 |
296.348.550 |
272.985.963 |
|
Ágúst |
50 |
44 |
68.172 |
49.771 |
226.581.462 |
164.946.995 |
|
September |
18 |
19 |
23.191 |
30.562 |
82.026.091 |
97.988.107 |
|
Október |
1 |
0 |
955 |
0 |
4.360.010 |
0 |
|
Samtals |
188 |
186 |
247.160 |
234.739 |
853.762.968 |
756.500.372 |
Tekjurnar sem renna í hafnarsjóð koma til vegna gjalda sem skipafélögin greiða fyrir að nota höfnina og þá þjónustu sem þar er í boði. Meðal annars voru seldir 9.579 m3 af vatni til skipanna.
Ekki liggja fyrir handfastar upplýsingar um þær tekjur sem renna inn í samfélagið þegar farþegar og áhafnir skipanna greiða fyrir vörur, þjónustu og afþreyingu á svæðinu. Hins vegar er hægt að leggja út frá þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið á kauphegðun farþega og áhafnar skemmtiferðaskipa. Þar kemur fram að meðaleyðsla hvers farþega eru um 23.000 kr. og meðaleyðsla þess hluta áhafnar sem fer í land eru um 11.000 kr. á mann (upphæðir uppreiknaðar frá 2018).
Skemmtiferðaskip árið 2026
Eins og staðan er í dag er 181 skipakoma bókuð árið 2026. Þegar er hægt að kynna sér áætlunina 2026 á dagatali hafna Ísafjarðarbæjar, þó einhverjar breytingar kunni að verða þegar nær dregur. Þar má sjá að fyrsta skipið kemur 18. apríl og það síðasta 22. september. Á Facebook-síðu Ísafjarðarhafnar er hægt að fylgjast með fréttum af skipakomum og fá fróðlegar upplýsingar um skipin.
Stefna og aðgerðaáætlun um móttöku skemmtiferðaskipa við hafnir Ísafjarðarbæjar 2024–27
Stefna og aðgerðaáætlun um móttöku skemmtiferðaskipa við hafnir Ísafjarðarbæjar 2024–27 var samþykkt af bæjarstjórn í apríl 2024. Stefnunni er ætlað að bæta upplifun gesta, minnka álag á samfélagið, bæta umhverfismál og tryggja sjálfbærni þessarar mikilvægu atvinnugreinar til lengri tíma.
Í aðgerðaráætluninni er meðal annars kveðið á um að hafnir Ísafjarðarbæjar setji á fót sérstakan styrktarsjóð, og var það gert þegar fyrir sumarið 2024 þegar fimm milljónum króna var úthlutað úr Sumarviðburðasjóði hafna Ísafjarðarbæjar. Hlutverk sjóðsins var svo endurskoðað og útvíkkað á þessu ári. Sjóðurinn fékk nafnið Styrktarsjóður hafna Ísafjarðarbæjar og var átta milljónum króna úthlutað til viðburðahalds, samfélagsverkefna og fegrunarverkefna, sem öllum var ætlað að efla samfélagið í Ísafjarðarbæ. Þá var gerður samningur um að sjóðurinn styrki tónlistarhátíðina Aldrei fór ég suður um 10 milljónir króna árlega.
Í aðgerðaráætlun eru einnig nokkrir liðir sem miða að bættum innviðum fyrir gesti skipanna. Einhverjum þeirra er lokið og aðrir eru í vinnslu, svo sem fjölgun almenningssalerna, fjölgun bílastæða fyrir ferðaþjóna og bætt skipulag þeirra, hönnun móttökuhúss á Sundabakka og bættar gönguleiðir á hafnarsvæði.