Samþykkt að veita stofnframlag til byggingar nemendagarða

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti á 492. fundi sínum þann 17. mars sl. að veita 12% stofnframlag til byggingar nemendagarða Háskólaseturs Vestfjarða, að fjárhæð kr. 93.897.600. Einnig var samþykkt að sjá um niðurrif skúrabyggingar við Fjarðarstræti 20, þar sem fyrirhugað er að reisa garðana. 

Í febrúar kynnti Háskólasetur Vestfjarða áform um að byggja nemendagarða á Ísafirði fyrir bæjarráði. Nemendum háskólasetursins hefur að undanförnu fjölgað úr því að vera 30-35 upp í 70-80. Fjölgunin hefur valdið nokkrum vanda í húsnæðismálum nemenda.

Að sögn Birgis Gunnarssonar, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, er það bæði jákvætt og mikilvægt fyrir Ísafjarðarbæ að samþykkja þátttöku verkefninu. „Þetta er liður í eflingu háskólastarfs á Vestfjörðum. Nemendagarðarnir eru lykilinn að því að hægt sé að fjölga nemendum við skólann auk þess sem þetta leysir úr þeim viðvarandi skorti sem verið hefur á húsnæði fyrir háskólanemendur á svæðinu,“ segir Birgir. „Niðurrif skúranna er löngu tímabært og mun kostnaður við það skila sér til baka á örfáum árum í formi fasteignagjalda. Verkefnið er því á allan hátt jákvætt fyrir samfélagið hér fyrir vestan.“