Samstarfssamningur við framkvæmdasjóð Skrúðs

Fyrir bæjarstjórn liggur til samþykktar samstarfsamningur Ísafjarðarbæjar við framkvæmdasjóð Skrúðs í Dýrafirði. Samningurinn er gerður á grunni eldri samnings og kveður á um varðveislu og umhirðu garðsins. Tilgangur samstarfsins er að stuðla að varðveislu Skrúðs sem er elsti skrúð-, matjurta- og kennslugarður landsins og hornsteinn í garðyrkjusögunni. Jafnframt að tryggja eðlilegt viðhald og umhirðu hans, almenningi til fróðleiks. Unnið verður að venjulegu viðhaldi garðsins í samræmi við starfslýsingu sem Ísafjarðarbær ákveður í samráði við framkvæmdasjóðinn en einnig verður unnið að verndaráætlun í samstarfi við Minjastofnun Íslands, en stefnt er að því að friðlýsa elsta hluta garðsins.

Sem fyrr segir er Skrúður einn elsti skrúðgarður landsins, opnaður þann 7. ágúst 1909. Garðurinn hefur verið vinsæll áfangastaður gesta enda veitir hann góða innsýn í sögu grasafræðinnar á Íslandi og þá einkum og sér í lagi vegna fjölda tegunda og staðsetningar nánast norður á hjara veraldar.