Samningur um byggingu nýs verknámshúss við MÍ undirritaður

Samningur um byggingu nýs verknámshúss við Menntaskólann á Ísafirði var undirritaður í menntaskólanum fimmtudaginn 4. apríl.

Ásmundur Einar Daðason barna- og menntamálaráðherra, Arna Lára Jónsdóttir bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Jón Páll Hreinsson bæjarstjóri Bolungarvíkurkaupstaðar og Bragi Þór Thoroddsen sveitastjóri Súðavíkurhrepps undirrituðu samninginn ásamt Heiðrúnu Tryggvadóttur skólameistara Menntaskólans á Ísafirði. Reykhólahreppur og Árneshreppur eru einnig aðilar að samningnum en fulltrúar þeirra gátu ekki verið viðstödd undirritunina í dag sem fór fram á bókasafni MÍ að viðstöddum nemendum, starfsfólki, skólanefnd, sveitastjórnarfólki og ýmsum aðilum úr atvinnulífinu

Samningurinn kveður á um skiptingu kostnaðar milli sveitarfélaganna og ríkisins. Sveitarfélögin munu lögum samkvæmt greiða samtals 40% af byggingarkostnaði en ríkið 60%. Vinna við frummatsskýrslu fyrir bygginguna er langt komin og að henni lokinni mun framkvæmdasýsla ríkisins undirbúa hönnunarvinnu og tilheyrandi útboð.

Með nýju verknámshúsi verður loks komin viðunandi aðstaða fyrir nám í trésmíði, háriðngreinum og rafiðngreinum sem hingað til hafa verið í kjallara heimavistar og á efri hæð núverandi verknámshúss. Nýja byggingin mun gera skólanum kleift að taka á móti fleiri nemendum í starfs- og verknám en aðsókn í slíkt nám er sífellt að aukast. Um helmingur nemenda í dagskóla stundar nú nám í verkgreinum við MÍ.

Við undirritunina í dag nýtti Ásmundur Einar tækifærið til að þakka sveitarstjórnarfólki fyrir þeirra framlag sem og Sigríði Kristjánsdóttur formanni skólanefndar. Heiðrún Tryggvadóttir skólameistari sagði það mikið fagnaðarefni fyrir skólann að þessi áfangi væri í höfn og gæfi skólanum mikinn byr í seglinn fyrir komandi framþróun í skólastarfinu.