Regnboginn á Silfurtorgi málaður á laugardaginn

Regnboginn sem hefur verið á Silfurtorgi undanfarin ár verður málaður upp á nýtt nú á laugardaginn, 17. maí. Í ár verður regnboginn með aðeins öðru sniði en hingað til, þar sem litum úr fána transfólks verður gert hátt undir höfði. Það er félagið Hinsegin Vestfirðir sem stendur fyrir verkinu, með leyfi og styrk Ísafjarðarbæjar, sem útvegar málninguna.

„Við viljum sýna samstöðu með og minna á að réttindi transfólks eru mannréttindi,“ segir Diego Ragnar Angemi, meðlimur í Hinsegin Vestfjörðum.

17. maí er einmitt alþjóðlegur dagur gegn fordómum í garð hinsegin fólks, einnig nefndur IDAHOBIT (International Day Against Homophobia, Biphobia, Intersex Discrimination and Transphobia). 

Öll sem vilja leggja hönd á plóg við að mála á laugardaginn eru velkomin en ráðgert er að hefjast handa klukkan 9.