Reglur um heiðursborgara Ísafjarðarbæjar samþykktar

Frá 90 ára afmæli Villa Valla, heiðursborgara Ísafjarðarbæjar.
Frá 90 ára afmæli Villa Valla, heiðursborgara Ísafjarðarbæjar.

Bæjarstjórn samþykkti á 474. fundi sínum þann 15. apríl reglur um heiðursborgara Ísafjarðarbæjar.

Þetta er í fyrsta sinn sem settar eru formlegar reglur hjá sveitarfélaginu um útnefningu heiðursborgara, þó heiðursborgarar hafi verið útnefndir í gegnum árin, og aðeins lágu fyrir óstaðfestar upplýsingar um hvernig farið hafði verið með þessi mál hjá sveitarfélaginu fram að þessu.

Í reglunum kemur meðal annars fram að bæjarstjórn getur útnefnt hvern þann íbúa, fyrrverandi sem núverandi, sem heiðursborgara Ísafjarðarbæjar. Við útnefningu heiðursborgara skal hafa hliðsjón af störfum viðkomandi einstaklings í þágu sveitarfélagsins og/eða afrekum í þágu lands og þjóðar. Horfa skal til þess að viðkomandi einstaklingur hafi haft veruleg jákvæð áhrif á samfélagið, störf og framganga hafi verið til fyrirmyndar og til eftirbreytni, og að viðkomandi hafi stuðlað að jákvæðri ímynd sveitarfélagsins. 

Heiðursborgari hefur engar skyldur gagnvart Ísafjarðarbæ sem slíkur en Ísafjarðarbær hefur eftirfarandi skyldur gagnvart heiðursborgara:

a) Veitir fullan styrk sem nemur greiðslu fasteignaskatts af íbúðarhúsi heiðursborgara sem hann býr sannarlega í, í Ísafjarðarbæ.
b) Bæjarstjórn skal heimilt samkvæmt fjárhagsáætlun að veita heiðursborgara sérstakt framlag.
b) Býður heiðursborgara til opinberra athafna/veislna á vegum Ísafjarðarbæjar.
c) Heldur nöfnum heiðursborgara með titlinum heiðursborgari á lofti við tilhlýðileg tækifæri.
d) Tekur þátt í athöfn við útför heiðursborgara, þegar þar að kemur, í samráði við aðstandendur,
að hámarki kr. 500.000.

Heiðursborgarar sveitarfélagsins og sveitarfélaganna sem sameinuðust undir nafni Ísafjarðarbæjar hafa verið:

Finnur Finnsson, bóndi á Hvilft, 1946.

Ásgeir Torfason, skipstjóri á Flateyri

Sveinn Gunnlaugsson, skólastjóri á Flateyri, 1959.

Jónas Tómasson, tónskáld á Ísafirði, 1960.

Hjörtur Hjálmarsson, skólastjóri á Flateyri, 1975.

Sturla Jónsson, hreppstjóri Suðureyrarhrepps, 1976.

Ragnar H. Ragnar, tónlistarskólastjóri á Ísafirði, 1978.

Úlfur Gunnarsson, læknir á Ísafirði, 1984.

Guðmundur Ingi Kristjánsson, bóndi og skáld í Önundarfirði, 1987.

Ruth Tryggvason, kaupkona á Ísafirði, 2006.

Vilberg Valdal Vilbergsson, tónlistarmaður og rakari á Ísafirði, 2018.