Ráðstafanir vegna kórónaveiru (2019-nCoV)

Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni og embætti landlæknis vegna kórónaveiru (2019-nCoV). Ekkert smit hefur verið staðfest á Íslandi en opinber viðbrögð á Íslandi munu miðast við alvarleika hinnar nýju veiru í ljósi nýrra áreiðanlegra upplýsinga. Undirbúningur á Íslandi er samkvæmt viðbragðsáætlunum sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.

Fjallað var um kórónaveiruna og mögulegar aðgerðir og viðbrögð ef tilfelli koma upp í sveitarfélaginu á fundi sameiginlegrar almannavarnarnefndar og aðgerðarstjórnar Ísafjarðarbæjar og Súðavíkurhrepps sem fram fór fimmtudaginn 6. febrúar.

Þá er starfsfólk Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða vel upplýst um gang mála og leiðbeiningar fyrir almenning hafa verið settar upp á stofnuninni.

Einkenni kórónaveiru

Einkenni líkjast helst inflúensusýkingu, hósti, hiti, bein- og vöðvaverkir, þreyta o.s.frv. 2019-nCoV getur einnig valdið alvarlegum veikindum með neðri öndunarfærasýkingum og lungnabólgu, sem koma oft fram sem öndunarerfiðleikar á 4-8 degi veikinda.

Ef einstaklingar finna fyrir veikindum er þeim bent á að hringja í síma 1700 (fyrir erlend símanúmer +354 544-4113) varðandi nánari upplýsingar og hvernig þeir eigi að nálgast heilbrigðiskerfið.

Þessir einstaklingar eru sérstaklega beðnir um að mæta ekki á bráðamóttöku sjúkrahúsa eða á heilsugæslustöðvar nema að fengnum ráðleggingum í síma. Einstaklingar með grunsamlega eða staðfesta sýkingu verða settir í einangrun skv. nánari leiðbeiningum. Einkennalausir einstaklingar sem hafa verið í samneyti við einstaklinga með staðfesta eða líklega sýkingu verða settir í sóttkví skv. nánari leiðbeiningum.

Frekari upplýsingar má finna hér: 
www.almannavarnir.is
www.landlaeknir.is