Öryggishnappar: Breytingar á þjónustu

Fyrirhugaðar eru breytingar á þjónustu Ísafjarðarbæjar vegna öryggishnappa, sem hafa staðið eldri borgurum og öðrum sem þurfa til boða, og vöktunar á hnöppunum.

Skyldur bæjarins varðandi öryggishnappa snúa að 27 íbúðum á Hlíf 1 samkvæmt lögum um málefni aldraðra þar sem segir m.a. „Í þjónustuíbúð fyrir aldraða skal vera öryggiskerfi[...].“

Núverandi búnaður sem er í notkun í þjónustuíbúðum á Hlíf er orðinn úreltur og því er þörf á að endurnýja hann til að tryggja öryggi notenda og auka gæði þjónustunnar. Því hefur verið ákveðið að Ísafjarðarbær muni semja við öryggisfyrirtæki sem útvegar íbúum á Hlíf 1 öryggishnappa. Hingað til hefur fyrirkomulagið verið þannig að á dagtíma, virka daga, er vöktun hnappanna á hendi vakthafandi slökkviliðsmanna í Slökkviliði Ísafjarðarbæjar. Eftir kl. 16 og um helgar hefur svo verið sérstök vakt fyrir hnappana. 

Bakvöktum slökkviliðs vegna hnappanna hefur verið sagt upp frá mánaðarmótum október-nóvember og er uppsagnarfrestur þrír mánuðir. Að þeim tíma liðnum mun vöktunin færast yfir til þess fyrirtækis sem samið verður við og verður tryggt að þjónustan muni ekki á neinum tímapunkti falla niður. Nýr samningur verður kynntur fyrir íbúum í þjónustuíbúðum þegar hann liggur fyrir en miðað verður við að mánaðarleg greiðsla notenda verði sambærileg við það sem hún er í dag m.t.t. niðurgreiðslu frá Sjúkratryggingum.

Notendur öryggishnappa á svæðinu sem ekki eru í þjónustuíbúð á vegum sveitarfélagsins þurfa sjálfir að gera samning við öryggisfyrirtæki fyrir 1. febrúar, óski þeir áframhaldandi þjónustu.