Ný nefnd um framtíðarhúsnæði leik- og grunnskóla í Skutulsfirði
Bæjarstjórn hefur samþykkt skipan nefndar um framtíðarhúsnæði leik- og grunnskóla í Skutulsfirði.
Meginhlutverk nefndarinnar er að undirbúa og leggja fram faglega greiningu á framtíðarhúsnæði leik- og grunnskóla í Skutulsfirði, með það að markmiði að tryggja hagkvæmt, öruggt og framtíðarþolið húsnæði sem mætir þörfum skólastarfs.
Haustið 2025 eru 405 nemendur skráðir í Grunnskólann á Ísafirði og hefur fjöldi nemenda aukist stöðugt síðustu ár. Burðargeta núverandi húsnæðis er um 338 nemendur og því ljóst að skólinn er ofsetinn. Samkvæmt minnisblaði sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs þarf að bæta við sex skólastofum hið minnsta til að uppfylla lágmarksrými. Þá eru ekki nógu mörg salerni fyrir starfsfólk auk þess sem ekkert fundarherbergi er í skólanum til að taka á móti foreldrum og öðrum utanaðkomandi aðilum. Einnig vantar rými fyrir félagsstarf nemenda og skólalóðin er lítil og ekki í samræmi við viðmið.
Verkefni nýrrar nefndar er því meðal annars:
- Að safna upplýsingum um núverandi húsnæði leik- og grunnskóla, starfsemi og framtíðarþörf skólanna.
- Að greina mismunandi valkosti til stækkunar m.a. með hliðsjón af skipulagi, aðgengi, samnýtingu rýma og fjárhagslegum forsendum.
- Að vinna samanburð á kostum og göllum mismunandi lausna, þar á meðal hvort henti betur að stækka núverandi skólabyggingar eða byggja nýjar á nýjum stað.
- Að leggja fram tillögur um næstu skref, þ.m.t. hönnunarfasa, undirbúning framkvæmda og fjárhagsramma.
- Að vera bæjarstjóra og embættismönnum til ráðgjafar varðandi alla þætti sem snúa að framtíðaruppbyggingu skólana.
- Að tryggja samráð við skólastjórnendur og starfsfólk skólanna um þarfir, forgangsröðun og hugmyndir varðandi húsnæðið.
Í nefndinni sitja Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, Guðbjörg Halla Magnadóttir og Þröstur Jóhannesson. Varamenn eru Bryndís Ósk Jónsdóttir, Helga Snorradóttir og Jóhann Birkir Helgason. Nefndin hefur þegar tekið til starfa og er miðað við að störfum hennar ljúki ekki síðar en í lok mars 2026.