Niðurstöður rekstrarreiknings á öðrum ársfjórðungi

Niðurstaða rekstrarreiknings annars ársfjórðungs Ísafjarðarbæjar var send Hagstofu Íslands þann 12. ágúst síðastliðinn. Annar ársfjórðungur sýnir nú rekstrarafgang upp á 41,6 m.kr. fyrir janúar til júní 2022. Fjárhagsáætlun fyrir sama tímabil gerir ráð fyrir rekstrarhalla upp á 31,5 m.kr. Þetta kemur fram í samantekt Eddu Maríu Hagalín, fjármálastjóra Ísafjarðarbæjar. 

Rekstrartekjur samstæðu eru hærri en áætlun gerði ráð fyrir sem nemur 230 m.kr. og rekstrargjöld eru lægri en áætlun gerði ráð fyrir sem nemur 15 m.kr. Fjármunatekjur og fjármagnsgjöld eru 172 m.kr. hærri í kostnaði en áætlun gerði ráð fyrir. Rekstrarreikningur A- hluta fyrir tímabilið janúar til júní 2022 sýnir nú rekstrarhalla upp á 14 m.kr. fyrir janúar til júní 2022. Fjárhagsáætlun fyrir sama tímabil gerir ráð fyrir rekstrarhalla upp á 98,5 m.kr.

Rekstrartekjur A-hluta eru sem nemur 180,8 m.kr. hærri en áætlun gerði ráð fyrir og rekstrargjöld eru 10 m.kr. lægri en áætlun gerði ráð fyrir. Fjármunatekjur og fjármagnsgjöld eru 106 m.kr. hærri í kostnaði en áætlun gerði ráð fyrir. 

Í samantekt fjármálastjóra kemur einnig fram að skatttekjur eru 112 m.kr. hærri en áætlað var sem er 9,4% frávik. Útsvarstekjur tímabilsins voru 1.303 m.kr. samanborið við áætlun upp á 1.191 m.kr. Þá eru greiðslur frá jöfnunarsjóði 19 m.kr undir áætlun. Þjónustutekjur eru 94 m.kr. umfram tekjuáætlun í samanteknum ársreikningi en A hluti er 54 m.kr. umfram tekjuáætlun. Eignatekjur eru 14 m.kr. undir tekjuáætlun í samanteknum ársreikningi en A hluti er 18 m.kr. umfram tekjuáætlun. Aðrar tekjur eru 33,5 m.kr. umfram tekjuáætlun í samanteknum ársreikningi en A hluti er 32 m.kr. umfram tekjuáætlun.

Minnisblað fjármálastjóra

Rekstrarreikningur A og B hluta janúar-júní 2022