Mistök við losun endurvinnslusorps

Þau leiðu mistök áttu sér stað við losun endurvinnslusorps í byrjun vikunnar, að verktaki sorphirðu losaði ekki endurvinnslutunnur við mörg heimili, og skildi eftir miða um að flokkun væri ábótavant.

Samkvæmt verklagi Ísafjarðarbæjar og verktaka skal fyrst hengja viðvörun um að bæta þurfi úr flokkun, og sé því ekki sinnt er verktaka heimilt að hafna losun.

Þessari viðvörunarskyldu var ekki sinnt og því hefur Ísafjarðarbær farið fram á það við verktaka að farin verði önnur ferð og sorpílát losuð þar sem umrædd merking var sett, og skal það gert á næstu dögum.

Eftir sem áður brýnir Ísafjarðarbær fyrir íbúum og fyrirtækjum að gæta vel að réttri flokkun, í samræmi við samþykktir og lög.

Við þetta má bæta að margar athugasemdir hafa borist vegna grænu pokanna fyrir lífræna úrganginn, sem ekki hefur verið dreift í hús um nokkurt skeið. Óskað hefur verið eftir því við verktaka að þeim verði dreift en það hefur tafist mjög. Sambærilegir pokar fást meðal annars í matvöruverslunum.