Málstefna Ísafjarðarbæjar samþykkt

Bæjarstjórn hefur samþykkt málstefnu fyrir Ísasfjarðarbæ. Leiðarljóst stefnunnar er að vandað, skýrt og auðskilið mál, hvort heldur ritað eða talað, skuli vera lykilatriði í allri þjónustu og stjórnsýslu Ísafjarðarbæjar. Íslenska skal vera í öndvegi og til fyrirmyndar.

Allar almennar upplýsingar um þjónustu sveitarfélagsins skulu, auk íslensku, einnig vera til á ensku og öðrum tungumálum eftir því sem kostur er. Tryggja skal réttindi fólks af erlendum uppruna í  þjónustu og samskiptum við yfirvöld sveitarfélagsins, með því að bjóða þeim sem ekki geta skilið eða tjáð sig á íslensku, endurgjaldslausa túlkaþjónustu, í samræmi við verkferla um túlkaþjónustu.

Í rafrænni þjónustu Ísafjarðarbæjar skal allt mál vera skýrt og auðskiljanlegt þannig að íbúar geti hæglega nýtt sér hana og lokið erindum sínum. Viðmót og aðgengi skal vera í samræmi við alþjóðlega staðla um upplýsingamiðlun til fólks með sérþarfir og fötlun. 

Málstefnan tekur mið af annarri stefnumörkun og skuldbindingum af hálfu Ísafjarðarbæjar og byggir á grundvallaratriðum stefnumörkunar um jafnræði, virðingu, traust, gagnsæi, gott aðgengi að upplýsingum og virkum samskiptum.

Málstefna Ísafjarðarbæjar