Lokun í sundlauginni á Flateyri vegna viðgerða á þaki

Í vetur hefur staðið yfir endurhönnun þaks sundlaugarinnar á Flateyri. Um er að ræða stórt og tímafrekt verkefni. Verkið felur í sér rif og förgun á þakdúk, borðaklæðningu, loftunarlektum, hluta af sperrum og fleiru af þaki sundlaugarinnar. Einnig rif og förgun á loftaklæðningu, rakavarnarlagi og hluta þakeinangrunar.

Í framhaldi verður farið í uppbyggingu þaksins með nýjum sperrum, borðaklæðningu, þakkanti og brúnum. Einnig er þörf að vinna lagfæringar innanhúss, s.s. við timburklæddan útvegg í sundlaugarsal, loft yfir svölum sundlaugar, málun veggja og lofts í sundlaugarsal og málun sundlaugarkars. Áætlað er að verkið fari í útboð á næstu dögum og að það hefjist í byrjun júni með verklok um miðjan ágúst.

Líkt og aðrar sundlaugar á landinu hefur Flateyrarlaug verið lokuð undanfarnar vikur vegna COVID-19. Vonir standa til að hægt verði að opna laugarnar aftur fyrir almenning eftir miðjan maí en þar sem stefnt er að því að viðgerðin á þaki Flateyrarlaugar hefjist fljótlega eftir það verður laugin ekki opnuð fyrr en framkvæmdum er lokið, um miðjan ágúst.

Athugið að eftir að þessi frétt birtist hefur verið tekin ákvörðun um að hafa útisvæði og potta opna í sumar.

Útisvæði og pottar við sundlaugina á Flateyri opin í sumar