Kveðja frá fráfarandi bæjarstjóra: Takk fyrir mig!

Kæru íbúar Ísafjarðarbæjar.

„Tíminn líður hratt á gervihnattaöld“, eins og segir í dægurlagatextanum og það má með sanni segja að tími minn hér fyrir vestan hafi liðið hratt.

Ég er afskaplega þakklátur fyrir þann tíma sem ég hef átt hér í Ísafjarðarbæ en ég kom til starfa þann 1. mars 2020 og hef ég því sinnt starfi bæjarstjóra í liðlega tvö ár. Á þessu tímabili hef ég kynnst ótal mörgu frábæru fólki í gegnum starf mitt og hef fundið vel fyrir þeim krafti sem býr í fólkinu á svæðinu og þeim einlæga ásetningi að láta gott af sér leiða fyrir samfélagið sitt. Margt hefur áunnist og margt spennandi er framundan í Ísafjarðarbæ.

Ég vil þakka fráfarandi bæjarstjórn fyrir samstarfið um leið og ég óska nýjum meirihluta til hamingju með sigur í kosningunum. Nýjum bæjarstjóra óska ég velfarnaðar í sínum störfum.

Ég vil að lokum þakka samstarfsfólki mínu fyrir góð kynni og gott samstarf en það kom vel í ljós í heimsfaraldrinum hversu öflugu fólki bærinn hefur á að skipa sem leysti fumlaust úr hverri þraut.

Áfram Ísafjarðarbær!

Kveðja,

Birgir Gunnarsson