Krafa að fiskeldisgjald renni til fiskeldissveitarfélaga

Bæjarstjórn samþykkti á 500. fundi sínum, sem haldinn var þann 20. október, umsögn bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar um frumvarp til fjárlaga 2023. Umsögnin tekur undir umsögn Vestfjarðastofu um fjárlagafrumvarpið en undirstrikar sérstaklega að bæta þurfi samkeppnisstöðu Vestfjarða til jafns við aðra landshluta. Í umsögninni segir að það verði ekki gert nema með því að styrkja innviði fjórðungsins.

„Vestfirðir hafa setið eftir uppbyggingu innviða eins og samganga, orku og fjarskipta. Mikil verðmætasköpun á sér stað á Vestfjörðum, t.a.m. í fiskeldi. Í lok árs 2021 voru tæp 28.000 tonnum af laxi slátrað að Vestfjörðum en það magn getur farið upp í 64.500 tonn þegar hámarkslífmassa verður náð. Þessi þunga umferð leggst ofan á veikt samgöngukerfi á Vestfjörðum með tilheyrandi sliti og slysahættu.“

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar leggur í umsögninni mikla áherslu á að það fiskeldisgjald sem verður til vegna auðlindagjalda í fiskeldi renni til A hluta reksturs fiskeldissveitarfélaga til að þau geti staðið undir þeirri miklu uppbyggingu innviða sem er framundan.

„Gríðarleg þörf er fyrir framkvæmdir á Vestfjörðum. Það er viðvarandi húsnæðisskortur, þörf á fráveituframkvæmdum, uppbyggingu hafna, skólamannvirkja og viðhald eigna sveitarfélaganna hefur setið á hakanum svo nokkur atriði séu nefnd. Þessi veigamiklu atriði standa í vegi fyrir framþróun vestfirsks samfélags. Þess vegna er það krafa fiskeldissveitarfélaganna að fiskeldisgjaldið renni til þeirra.“