Kallað eftir athugasemdum vegna stefnu um móttöku skemmtiferðaskipa

Ísafjarðarbær kallar eftir athugasemdum íbúa og annarra hagsmunaaðila vegna stefnu um móttöku skemmtiferðaskipa við hafnir Ísafjarðarbæjar 2024–26.

Athugasemdir skulu berast skriflega á netfangið postur@isafjordur.is eða með pósti til:

Ísafjarðarbæjar
Hafnarstræti 1
400 Ísafjörður

Athugasemdafrestur er til og með 27. febrúar 2024.

Stefnan í heild sinni er hér fyrir neðan en hana er líka hægt að sækja sem pdf.

Drög að stefnu um móttöku skemmtiferðaskipa við hafnir Ísafjarðarbæjar 2024–26

Skemmtiferðaskipum sem koma til hafna Ísafjarðarbæjar hefur fjölgað ört síðustu ár. Skyldi engan undra; Ísafjarðarbær er frábær viðkomustaður sem býður upp á skemmtilega blöndu af náttúru- og menningarupplifun.

Þessari móttöku hafa fylgt miklar tekjur fyrir hafnarsjóð, ferðaþjóna, verslanir og þjónustu. Mörg fyrirtæki sem starfa á ársgrundvelli og þjóna heimamönnum hefðu ekki rekstrargrundvöll án skemmtiferðaskipanna. 

Undanfarin misseri hafa farið fram umfangsmiklar framkvæmdir við lengingu hafnarbakka, dýpkun og stækkun lands sem ekki er fyllilega lokið.

Ísafjarðarhöfn er stærsti ferðaþjónninn á Vestfjörðum. Því fylgja tækifæri og ábyrgð, og einn liður í því er að sveitarfélagið og höfnin setji sér skýra stefnu. Í þessu skjali er sett stefna til þriggja ára.

Eitt af því sem kemur fram í stefnunni er hámarksfarþegafjöldi sem miða skal við. Þolmörk við móttöku ferðamanna eru flókið hugtak, en ljóst er að þau taka meðal annars mið af því hvaða tekjur sveitarfélagið og samfélagið hefur af móttöku skipanna, hvaða þjónusta og innviðir eru tiltæk og hvernig til tekst. Þolmörkin hækka því eftir því sem innviðir styrkjast, þjónustuframboð eykst, og jákvæð áhrif skipakomanna eru skýrari. Öllum eftirfarandi stefnumálum er ætlað að bæta upplifun gesta, minnka álag á samfélagið, bæta umhverfismál og tryggja sjálfbærni þessarar atvinnugreinar til lengri tíma. 

Stefnumál

  • Áfram verði allar hafnir í Ísafjarðarbæ markaðssettar sem áfangastaðir fyrir skemmtiferðaskip. Mest áhersla er á Ísafjarðarhöfn og þar verður stærstur hluti fjárfestingar tengd móttöku skipanna. Við framkvæmdir á öllum höfnunum verði litið til þess að þær nýtist öllum notendum, þ.m.t. skemmtiferðaskipum.
  • Teknir verða upp fjárhagslegir umhverfishvatar, t.d. EPI, þegar Alþingi heimilar slíka gjaldtöku.
  • Höfnin setji á stofn Skemmtiferðaskipasjóð. Fjárhæð sjóðsins verði ákveðin í fjárhagsáætlun hvers árs og taki með beinum hætti mið af tekjum fyrra árs. Sjóðurinn hafi tvíþætt hlutverk;
    • að styrkja sjálfstæð verkefni sem efla höfnina sem áfangastað, svo sem með uppbyggingu innviða, uppsetningu skilta, eða bætt aðgengi, og
    • styrkja menningu- og félagslíf í bænum á svipaðan hátt og samfélagssjóður Orkubúsins.
  • Höfnin setji upp lifandi mælaborð um fjölda gesta og farþega ásamt áætluðum tekjum hafnarinnar og samfélagsins. Þar verði einnig birt önnur gögn sem tiltæk eru og tengjast málinu, svo sem staða loftgæða. 
  • Klárað verði deiliskipulag fyrir Suðurtanga árið 2024 og uppbygging samkvæmt því hefjist strax í kjölfarið.
  • Almennt skulu skemmtiferðaskip ekki taka land utan hafna. Þar sem Ísafjarðarbær er landeigandi er það því bannað nema með leyfi bæjarstjóra eða hafnarstjóra. Skemmtiferðaskip skulu hafa skýrt leyfi landeigenda til landtöku utan hafna. Um landtöku í Hornstrandafriðlandinu gildir verndaráætlun sem meðal annars banna landtöku hópa sem eru fjölmennari en 51.
  • Almennt verði ekki heimilað að fara frá borði fyrr en kl. 8.00 að morgni, nema viðkomandi farþegar séu að fara beint í rútuferð.
  • Skipstjórum verði bannað að þeyta skipsflautur nema þegar þess er krafist af öryggisástæðum.
  • Ráðist verður í hönnun á húsi fyrir farþegamóttöku árið 2024 svo framkvæmdir geti hafist 2025.
  • Áfram verður unnið að undirbúningi að rafvæðingu hafnarinnar.
  • Verkfræðistofa er að hanna gönguleiðir, öryggismál og aðgengi. Farið verði í verklegar framkvæmdir strax 2024. Samhliða verði núverandi gönguleiðir afmarkaðar betur, meðal annars til að varna því að bílar leggi á göngusvæðum.
  • Miðað er við að hámarksfjöldi farþega verði 8.000 á dag, en sé útlit fyrir að gestir verði umfram 6.000 að því skipi sem er að bóka sig meðtöldu, verði skipafélög hvött til að endurbóka. (Miðað er við skráðan hámarksfjölda hvers skips, en farþegar eru jafnan um 20–40% færri um borð í raun).
  • Hafnarstjóri vinni að varanlegri lausn á salernismálum í bænum öllum og samhæfi vinnu þeirra sem koma þurfa að málum. Þetta innifelur ákvörðun staðsetninga, hönnun og byggingu þar sem það á við, en í öðrum tilvikum útboði á aðstöðu sem opin yrði almenningi.
  • Stefnt er að því að útbúa stæði fyrir sjálfstætt starfandi ferðaþjóna á hafnarsvæðinu.
  • Hafnarstjórn setji reglur um útleigu þessara stæða og umgengni á hafnarsvæðinu vorið 2024.
  • Sölubásar á höfn eru leyfisskyldir hjá hafnarstjóra, og stöðuleyfi byggingafulltrúa eftir atvikum.
  • Hafnir Ísafjarðarbæjar starfa innan Cruise Iceland og líta á samtökin sem mikilvægan bandamann í hagsmunagæslu, þekkingarmiðlun og samvinnu.
  • Hafnarstjóri hafi frumkvæði að því að halda tvo fundi á ári með hagaðilum, einn í apríl og annan í september.
  • Hafnarstjóri vinni áfram með ferðaþjónum og Ísafjarðarbæ að því að miðla góðum og réttum upplýsingum um höfnina, Ísafjarðarbæ, umgengnisreglur, gönguleiðir og fleira.
  • Hafnir Ísafjarðarbæjar leiti allra leiða til að miðla upplýsingum um áfangastaðinn og tilmælum um umgengni til farþega, svo sem á vef hafnanna, í gegnum þráðlaust net á höfninni, með skiltum og bæklingum.

Stefna miðuð við fjölda farþega í höfn

Viðbúnaður Ísafjarðarhafnar og annarra aðila skal taka mið af áætluðum fjölda gesta í höfn. Hér eru jafnan einungis aðgengilegar upplýsingar um hámarksfarþegafjölda skips og er því miðað við það, frekar er raunverulegan fjölda. Ekki eru taldir með starfsmenn um borð.

 

0–1.000 farþegar 

1.000–3.000 farþegar

3.000–6.000 farþegar 

6.000–8.000 farþegar

8.000+ farþegar

Hafnarstræti göngugata

   

x

x

á ekki við

Upplýsingamiðstöð opin

x

x

x

x

á ekki við

Tvöföld vakt á upplýsingamiðstöð

   

x

x

á ekki við

Tryggð opnun á Ísafjarðarkirkju og Safnahúsi

 

x

x

x

á ekki við

Samræmd opnun á einkarekinni þjónustu*

   

x

x

á ekki við

Menningarviðburðir fjármagnaðir af höfninni, t.d. á Silfurtorgi

   

x

x

á ekki við

Skip hvött til að fara annað**

     

x

á ekki við

Lokað fyrir bókanir fleiri skipa**

       

x

*Fyrirtæki/verslanir/veitingahús samkvæmt heiðursmannasamkomulagi sem höfnin gæti haft frumkvæði að. Einkum snýst þetta um að tryggja opnun um helgar þegar ella væri lokað. 
** Fjöldatölur miðast við fjölda að því skipi sem er að bóka sig meðtöldu.