Ísafjörður: Kríuvarnir í Tunguhverfi

Borist hafa fregnir af því að krían sé komin í Skutulsfjörð og má því líklega segja að vorið sé komið. Þessi vorboði er þó ekki öllum til gleði en undanfarin ár hefur kríuvarpið í Tunguhverfi stækkað mjög  og þannig færst nær byggðinni. Íbúar hverfisins hafa kallað eftir aðgerðum til að hægt sé að nýta leikvöllinn og njóta útivistar að sumarlagi á svæðinu, án þess að eiga á hættu að verða fyrir árás kríanna.

Til að bregðast við þessu hefur Ísafjarðarbær tekið á leigu fuglavarnarbúnað frá www.fuglavarnir.is og standa vonir til að hann muni alfarið koma í veg fyrir að krían komi upp varpi í Tunguhverfi. Búnaðurinn spilar viðvörunarhljóð kríunnar sem fælir fuglana burt. Búnaðurinn, sem er sjálfvirkur, vind- og vatnsheldur, hefur þegar verið settur upp og verður í gangi eins lengi og þurfa þykir.

Þá verður skjólbelti gróðursett við leikvöllinn sem mun vonandi hjálpa til við að halda kríunni frá til lengri tíma. 

Á fyrri árum hafa aðrar aðferðir verið reyndar vegna ágangs kríunnar á svæðinu, meðal annars var skítur borinn á varpsvæðið eitt árið, en hingað til hafa þessar varnir ekki virkað sem skyldi.