Ísafjörður: Hundaskítur á Eyrinni

Ljóst er að hundaeigendur í Ísafjarðarbæ, og þá sérstaklega á Eyrinni á Ísafirði, þurfa að gera betur þegar kemur að því að hirða upp skítinn eftir fjórfætta skjólstæðinga sína.

Vandamálið er því miður ekki nýtt af nálinni, en í samþykkt um hundahald kemur skýrt fram að eigendum og umráðamönnum hunda er ávallt skylt að fjarlægja saur eftir hunda sína. Misbrestir á því að þessu sé fylgt koma hvað skýrast í ljós þegar snjóa leysir en tilefni þessara skrifa er uppákoma við Grunnskólann á Ísafirði þar sem hundaskítur sem skilinn hafði verið eftir á skólalóðinni dreifðist um alla lóð og inn í skólann undir skóm fjörugra skólakrakka. Það segir sig sjálft að mikil og ólystug vinna er að þrífa skó, flíkur og húsnæði þegar þetta gerist og best væri auðvitað að þurfa ekki að standa í því yfir höfuð.

Börn og fullorðnir sem fara um og leika sér á opnum svæðum eiga heimtingu á að geta notið útiverunnar án þess að eiga á hættu að atast út í hundaskít. Því er biðlað til hundaeigenda að virða reglur og hirða upp eftir gæludýrin sín geri þau þarfir sínar á götum, gangstéttum, opnum svæðum, leiksvæðum og í görðum annarra.