Ísafjarðarbær verður aðili að sameiginlegu umdæmisráði barnaverndar

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti á 498. fundi sínum þann 15. september að sveitarfélagið verði aðili að sameiginlegu umdæmisráði barnaverndar á landsbyggðinni. Með þessu fyrirkomulagi fela aðildarsveitarfélög umdæmisráðinu öll þau hlutverk sem því eru fengin í barnaverndarlögum og eftir atvikum öðrum lögum.

Þann 13. júní 2021 samþykkti Alþingi breytingar á barnaverndarlögum sem fela í sér grundvallarbreytingar á uppbyggingu barnaverndar innan sveitarfélaga. Barnaverndarnefndir í núverandi mynd eru lagðar niður og meginábyrgð daglegra verkefna barnaverndar falin barnaverndarþjónustu. Í staðinn verður komið á fót umdæmisráðum barnaverndar, sem fara með úrskurðarvald í ákveðnum barnaverndarmálum þar sem mest reynir á faglega þekkingu. 

Umdæmisráðum er falin flest þau verkefni sem barnaverndarnefndir hafa farið með hingað til og hafa ekki heimildir til að framselja til starfsmanna. Umdæmisráð tekur eftirfarandi ákvarðanir með úrskurði sbr. tilvitnuð ákvæði barnaverndarlaga:
1. Beiting úrræða án samþykkis foreldra, sbr. 26. gr.
2. Vistun barns utan heimilis í allt að fjóra mánuði, sbr. 27. gr.
3. Heimild til barnaverndarþjónustu um að gera kröfu fyrir dómi um vistun barns í allt að tólf mánuði, sbr. 28. gr.
4. Heimild til barnaverndarþjónustu um að gera kröfu fyrir dómi um forsjársviptingu, sbr. 29. gr.
5. Umgengni í fóstri og við vistun, sbr. 74. og 81. gr.

Umdæmisráðin eru skipuð til fimm ára, eru sjálfstæð í störfum sínum, standa utan við almenna stjórnsýslu sveitarfélaga og ráðsmenn taka ekki við fyrirmælum um meðferð einstakra mála. Ráðin eru skipuð þremur ráðsmönnum sem hafa ákveðna fagþekkingu, þ.e. félagsráðgjafa, sálfræðingi og lögfræðingi. 

Umdæmisráð hefur ekki fast aðsetur en aðildarsveitarfélög skuldbinda sig til að útvega þeim fundaraðstöðu á hverjum stað eftir því sem nauðsyn krefur.

Bæjarstjóra var falið að vinna að framgangi málsins og í framhaldinu undirrita samning um rekstur umdæmisráð barnaverndar á landsbyggðinni, fyrir hönd Ísafjarðarbæjar, ásamt viðaukum.

Samningur um rekstur umdæmisráðs barnaverndar á landsbyggðinni