Ísafjarðarbær hlýtur 327 m.kr. styrk til úrbóta á fráveitu

Ísafjarðarbær hefur hlotið 327 milljóna króna styrk frá Evrópusambandinu til að bæta meðhöndlun fráveituvatns í Pollinum í Skutulsfirði.

Verkefnið er hluti af stærra verkefni, LIFE ICEWATER, og er heildarupphæð styrksins 3,5 milljarðar króna. Ísafjarðarbær er næststærsti styrkþeginn í verkefninu.

LIFE ICEWATER verkefnið er samstarf Umhverfisstofnunar og 22 annarra stofnana og sveitarfélaga. Því er ætlað að flýta fyrir og bæta innleiðingu vatnaáætlunar á Íslandi og verður unnið á næstu sex árum.

Meðal markmiða er að:

  • Auka þekkingu á notkun, eiginleikum og ástandi vatns á Íslandi
  • Tryggja fumlausa og samhæfða stjórnsýslu þegar kemur að vatnamálum
  • Bæta vatnsgæði, til dæmis með úrbótum í fráveitu og hreinsun á fráveituvatni
  • Fræða almenning og hagaðila um mikilvægi vatns

Sem fyrr segir snýr verkefnið í Ísafjarðarbæ að því að bæta meðhöndlun fráveituvatns í Pollinum í Skutulsfirði. Ráðist verður í úrbætur á fráveitukerfi Ísafjarðar til að bæta vatnsgæði Pollsins en um 60% af fráveituvatni á Ísafirði, skólp frá um 1.800 íbúum, fer í Pollinn.

Verkefninu má í meginatriðum skipta í tvennt:

  • Vöktun og mælingar á vatninu í Pollinum til að greina ástand og mengunarstig.
  • Hönnun og framkvæmd aðgerða sem fela í sér sameiningu fráveituútrása og byggingu hreinsistöðva til að bæta hreinsun á fráveituvatni.

Styrkurinn frá LIFE-áætluninni nemur 60% af heildarkostnaði verkefnisins, eða 327 milljónum króna, en Ísafjarðarbær leggur fram mótframlag upp á 218 milljónir króna. Að sögn Axels Rodriguez Överby, sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs, er styrkurinn mikilvægur stuðningur til þess að ná fram nauðsynlegum úrbætum í fráveitumálum Ísafjarðarbæjar og stuðla þannig að betri vatnsgæðum í Pollinum. „Við erum sérstaklega þakklát Umhverfisstofnum og öllum öðrum samstarfsaðilum fyrir þeirra góðu vinnu og framlag í þessu stóra, sameiginlega verkefni,“ segir Axel. „Við væntum þess að með verkefninu færist Ísafjarðarbær nær því að uppfylla markmið vatnaáætlunar um sjálfbæra nýtingu vatna og umhverfisvernd.“

Samningur um styrkinn var undirritaður þann 6. desember, að undangengnu samþykki bæjarstjórnar.

  • Nánari upplýsingar um LIFE ICEWATER má finna á vef Umhverfisstofnunar.
  • Kort af svæðinu sem fellur undir verkefnið.