Ísafjarðarbær fær 76,7 milljónir króna úr Fiskeldissjóði
02.06.2025
Fréttir
Ísafjarðarbær hlaut tvo styrki við úthlutun úr Fiskeldissjóði 2025, samtals að upphæð 76,7 milljónir króna. 44,8 milljónir króna fengust vegna hönnunar nýrrar slökkvistöðvar á Suðurtanga, auk framkvæmda við grunn byggingarinnar. Þá fengust 31,8 milljónir króna vegna varmadæla til upphitunar aðalvallar á Torfnesi.
Alls var sótt um styrki vegna fimm verkefna. Þau verkefni sem hlutu ekki brautargengi voru:
- Endurbætur á félagsheimilinu á Þingeyri
- Endurbætur á Sundhöll Ísafjarðar
- Jarðgerðarstöð (moltuvél)
Fiskeldissjóður starfar á grundvelli laga um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð. Sjóðnum er ætlað að veita sveitarfélögum þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað styrki til uppbyggingar innviða. Til úthlutunar úr sjóðnum á árinu 2025 voru 456 milljónir króna.