Ísafjarðarbær fær 76,7 milljónir króna úr Fiskeldissjóði

Ísafjarðarbær hlaut tvo styrki við úthlutun úr Fiskeldissjóði 2025, samtals að upphæð 76,7 milljónir króna. 44,8 milljónir króna fengust vegna hönnunar nýrrar slökkvistöðvar á Suðurtanga, auk framkvæmda við grunn byggingarinnar. Þá fengust 31,8 milljónir króna vegna varmadæla til upphitunar aðalvallar á Torfnesi.

Alls var sótt um styrki vegna fimm verkefna. Þau verkefni sem hlutu ekki brautargengi voru: 

  • Endurbætur á félagsheimilinu á Þingeyri
  • Endurbætur á Sundhöll Ísafjarðar
  • Jarðgerðarstöð (moltuvél)

Fiskeldissjóður starfar á grundvelli laga um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð. Sjóðnum er ætlað að veita sveitarfélögum þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað styrki til uppbyggingar innviða. Til úthlutunar úr sjóðnum á árinu 2025 voru 456 milljónir króna.