Húsnæði hjúkrunarheimilisins Eyrar selt
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt sölu á fasteigninni Eyri á Torfnesi, Ísafirði, þar sem hjúkrunarheimilið Eyri er til húsa. Kaupandinn er félagið Safnatröð slhf. og er kaupverð einn milljarður króna.
Sala húsnæðisins hefur ekki áhrif á þá þjónustu sem veitt er á hjúkrunarheimilinu, en hún verður áfram alfarið í höndum Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, óháð eignarhaldi.
Hér fyrir neðan er samantekt bæjarstjóra um söluna.
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur nú samþykkt kaupsamning vegna sölu á húsnæði hjúkrunarheimilisins Eyrar. Við þessi tímamót er tilefni til að rifja upp forsögu málsins.
Forsagan
Ísafjarðarbær byggði Eyri í svokallaðri leiguleið og var húsið tekið í notkun fyrir um 10 árum síðan. Í leiguleiðinni fólst að sveitarfélag tók að sér, á grundvelli samnings við [þá] velferðarráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti, hönnun og byggingu hjúkrunarheimilis. Verkið var á ábyrgð sveitarfélagsins sem annaðist fjármögnun þess. Ríkið kom til móts við sveitarfélagið með því að greiða húsaleigu til 40 ára, en hún svarar aðeins til 85% stofnkostnaðar – sveitarfélagið þarf að leggja til 15%. Ákvörðun um leiguleiðina var tekin árið 2009 í kjölfar efnahagskreppunnar og þegar mörkuð hafði verið sú stefna að færa málaflokk hjúkrunarheimila yfir til sveitarfélaga. Í kjölfar þessa var hafist handa við byggingu hjúkrunarheimilisins og árið 2016 var hjúkrunarheimilið Eyri á Ísafirði tekið í notkun.
Rekstrarsaga
Nánast frá upphafi var það auðséð að þetta fyrirkomulag var sveitarfélaginu alls ekki hagfellt, m.a. vegna samningsins við ríkið og óhagstæðra lána. Á síðustu 10 árum hefur Eyri aðeins verið rekið með afgangi í tvö ár (byggingarárið 2015 og 2018).
Þegar skoðuð eru framlög sveitarfélagsins (fyrrnefnd 15%) síðan 2016 þá hafa þau numið í heild 130 m, kr. Miðað við þessa upphæð má leiða að því líkum að framlög næstu 30 ár af samningstímanum verði um 500 m.kr. á verðlagi 2025.
Stjórnvöld eru fallin frá þeirri hugmynd að flytja málefni hjúkrunarheimila yfir á sveitarfélögin. Sveitarfélög hafa því ekki neitt hlutverk þegar kemur að rekstri hjúkrunarheimila, þaðan af síður í rekstri fasteigna þeirra. Eru því mörg sveitarfélög að skoða stöðu sína í þessum efnum.
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti á 535. fundi sínum þann 6. júní 2024 að hefja söluferli á fasteigninni Eyri á Ísafirði. Tillagan var samþykkt einróma (9-0).
Söluferlið
Undirbúningur hófst sumarið 2024 og fól hann m.a. í sér ástandsskoðun á fasteigninni, enda öllum ljóst að fyrir lægi að fara í umfangsmiklar viðgerðir á ytra byrði hússins. Fasteignin var auglýst til sölu í byrjun október 2024.
Fjögur tilboð bárust í fasteignina. Ákveðið var að fara í frekari samningaviðræður við hæstbjóðanda sem er félagið Safnatröð slhf. Félagið Safnatröð slhf. er í eigu innviðasjóðsins Innviðir fjárfestingar II slhf. sem er að mestu leyti í eigu 13 lífeyrissjóða. Félagið á meðal annars fasteign hjúkrunarheimilisins Seltjarnar á Seltjarnarnesi sem það keypti árið 2024.
Í samningaferlinu lá jafnframt fyrir að afnotasamningur við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða var sveitarfélaginu óhagstæður og hann löngu útrunninn. Nauðsynlegt var að endurnýja samninginn með hliðsjón af eðlilegum reglum húsaleigulaga, en það tók rúmlega hálft ár vegna tafa í ráðuneytunum.
Auk þessa lá fyrir að fara þyrfti í gríðarlega kostnaðarsamar viðgerðir á ytra byrði hjúkrunarheimilisins. Reiknað er með að það geti kostað um 80–120 m.kr. Í samningaferlinu gerði Ísafjarðarbær kröfu um að viðgerðir á ytra byrði hússins yrðu greiddar af kaupanda og yrðu bænum óviðkomandi.
Samhliða gerð kaupsamnings var gerður nýr lóðarleigusamningur sem gerir ráð fyrir að lóðin stækki til samræmis við gildandi deiliskipulag frá 2023. Leigutíminn er til 30 ára en áskilnaður er um framlengingu á leigutíma ef lóðarhafi fer fram á það. Ísfjarðarbær skuldbindur sig jafnframt til að breyta deiliskipulagi þegar 10 ár eru eftir af leigutímanum og heimila íbúðarhúsnæði eða atvinnuhúsnæði á lóðinni, ef málefnalegar ástæður eru fyrir breytingunni, s.s. ef húsnæðið verður ekki lengur nýtt sem hjúkrunarheimili.
Kaupverðið
Kaupverðið er einn milljarður króna.
Helmingur kaupverðs, þ.e. 500 m.kr. verður greiddur með yfirtöku á láni og hinn helmingurinn með peningagreiðslu.
Við næstu 10 rýma stækkun á eigninni munu eigendur fasteignarinnar greiða gatnagerðargjöld til Ísafjarðarbæjar af stækkuninni. Við síðari tíma stækkanir greiðist auk þess byggingaréttargjald.
Kaupverðið hækkar jafnframt á næstu tveimur árum ef ríkið samþykkir að hækka leigugrunn hjúkrunarheimila sem byggð voru samkvæmt leiguleiðinni.
Áhvílandi lán á fasteigninni þann 30. september 2025 voru 1.450 m.kr. Bókfært verð fasteignarinnar var í upphafi ársins 1.422 m.kr. Bærinn mun greiða upp þau lán sem út af standa.
Með þessu innleysist talsvert tap af hjúkrunarheimilinu. Það tap er komið til af mörgum ástæðum. Hluti af því er vegna áfalla á framkvæmdatíma og það hvernig sumar ákvarðanir í hönnun og framkvæmd hússins hafa reynst dýrari en vonast var eftir. Hluti er vegna þess að ríkið borgar leigu samkvæmt þágildandi kröfulýsingu um hjúkrunarheimili, en sú kröfulýsing gerði ekki ráð fyrir sal fyrir alla íbúa heimilisins. Bærinn ákvað að byggja hann á eigin reikning, en það er stóri salurinn við aðalinnganginn sem reynst hefur farsæl ákvörðun því það rými gefur kost á mjög fjölbreyttri notkun.
Ísafjarðarbær er ekki einn um að hafa þurft að borga með hjúkrunarheimilum, og er hægt að rekja langan lista frá nútíð og fortíð um það. Nægir hér að nefna í því samhengi að samkvæmt samkomulagi milli ríkis og Sambands íslenskra sveitarfélaga frá því fyrr í ár munu flest sveitarfélög gefa ríkinu sinn 15% hluta í hjúkrunarheimilum.
Hvaða áhrif hefur salan á sjóði bæjarins?
Ef fasteignin Eyri yrði ekki seld myndi það þýða að rekstrarhalli ársins 2026 yrði um 130 milljónir króna vegna viðhalds sem þarf að fara í, auk 15% framlags sveitarfélagsins. Eftir það má gera ráð fyrir rekstrarhalla í kringum 30 milljónir króna árlega
Ef horft er enn lengra fram í tímann má ætla að á næstu 30 árum verði uppsafnaður rekstrarhalli fasteignarinnar ríflega 1,5 milljarður króna.
Við munum sjá þess merki til lengri tíma litið að um rétta ákvörðun er að ræða fyrir sveitarfélagið. Þó mun ársreikningur 2025 bera þess merki að eignin hafi verið seld og ganga hafi þurft frá óhagstæðum lánum. Ef horft er til þeirra kennitalna sem sveitarfélagið byggir fjárhagsleg markmið á er það helst skuldahlutafall A+B hluta sem breytist, og fer úr 101% í 85%
Til framtíðar mun ráðstöfunarfé Ísafjarðarbæjar aukast sem nemur um 50 milljónum árlega. Ísafjarðarbær mun ekki þurfa að standa straum af 15% framlögum vegna leiguleiðarsamningsins, vaxtagreiðslur og afborganir óhagstæðra lána falla út, auk þess sem viðhaldskostnaður vegna eignarinnar verður enginn.
Hvaða áhrif hefur salan á Eyri á íbúa Ísafjarðarbæjar?
Hjúkrunarheimilið Eyri verður áfram rekið af ríkinu í gegnum Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Það breytist ekki þó fasteignin sjálf skipti um eigendur. Sama þjónustan verður rekin í fasteigninni og hefur salan ekki áhrif á íbúa á Eyri. Auk þess eru nýjir eigendur sérhæfðir í rekstri fasteigna og ætla sér í endurbætur á ytra byrði hússins.
Ráðstöfunarfé bæjarins eykst sem nýta má í aðra innviðauppbyggingu og framkvæmdir til hagsbóta fyrir íbúa og samfélagið.
Sigríður Júlía Brynleifsdóttir
Bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar