HMS: Drög að áætluðum eignamörkum jarða á Vestfjörðum – Ítrekun

Skjáskot af landeignaskrá HMS.
Skjáskot af landeignaskrá HMS.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, HMS, er vel á veg komin við að kortleggja jarðir á Vestfjörðum og hefur áætlað eignarmörk um 750 jarða í landshlutanum. Hægt er að skoða eignamörkin í landeignaskrá HMS.

Áætlun eignamarka á Vestfjörðum er liður í verkefni HMS um að áætla landamerki jarða um allt land, þar sem hnitsett afmörkun liggur ekki fyrir. Markmið verkefnisins er að bæta landeignaskrá þannig að hún geti þjónað sem heildstætt upplýsingakerfi um eignarhald lands á Íslandi.

Nánar um áætlun landamerkja

HMS hefur sent eigendum jarðanna bréf á island.is þess efnis að drög að áætluðum eignamörkum væru komin í birtingu. Aðilar hafa sex vikur frá dagsetningu bréfs til að bregðast við og senda HMS athugasemdir um áætlaða legu einstakra eignamarka.

Athugasemdir er hægt að senda á rafrænan hátt gegnum þar til gert form á island.is. Þar að auki geta landeigendur hitt starfsmenn í eigin persónu ef bókaður er fundur með því að senda okkur póst á netfangið jardir@hms.is eða í símanúmer stofnunarinnar 440 6400.

Starfsfólk umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar getur aðstoðað við að setja upp fjarfund við HMS. Hægt er að óska eftir því með því að senda tölvupóst á Helgu Þuríði Magnúsdóttur, helgathuridur@isafjordur.is.