Hafdís Gunnarsdóttir ráðin sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti á 473. fundi sínum þann 18. mars að ráða Hafdísi Gunnarsdóttur í starf sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs. Var hún metin hæfust af umsækjendum. Alls bárust 10 umsóknir um starfið og var fimm umsækjendum boðið í viðtal.

Hafdís starfaði sem leiðbeinandi og síðar sem kennari við Grunnskólann á Ísafirði og kenndi á öllum aldursstigum, auk þess sem hún tók þátt í þróunar- og nýsköpunarverkefnum innan skólans. Þá starfaði hún sem ráðgjafi í barnavernd á velferðarsviði Ísafjarðarbæjar í þrjú ár en starfar í dag sem forstöðumaður stuðningsþjónustu á sama sviði, þar sem hún ber ábyrgð á stjórnun og rekstri deildarinnar, ásamt fjárhags- og launaáætlanagerð. Hafdís hefur auk þess verið formaður fræðslunefndar Ísafjarðarbæjar undanfarin þrjú ár og hefur þar fengið mikla innsýn í skóla- og tómstundamál sveitarfélagsins.

Reynsla og þekking Hafdísar á opinberri stjórnsýslu og þeim lögum og reglum sem þar gilda er töluverð. Reynsla hennar kemur m.a. úr störfum hennar sem kennari, ráðgjafi í barnavernd og sem stjórnandi á velferðarsviði. Þá hefur hún setið í sveitarstjórn, verið varaþingmaður og er formaður stjórnar Vestfjarðarstofu. Þá hefur hún einnig sótt sér þekkingu á opinberri stjórnsýslu úr ýmsum námskeiðum á háskólastigi.

Hafdís er með menntun í iðnrekstrarfræði frá Tækniháskóla Íslands, B.Ed. gráðu í grunnskólakennarafræðum frá Háskólanum á Akureyri. Hafdís er í meistaranámi í forystu og stjórnun við Háskólann á Bifröst og hefur auk þess setið námskeið á framhaldsstigi við Háskóla Íslands í stjórnsýslurétti, opinberri stjórnsýslu og stjórnun sveitarfélaga.

Við bjóðum Hafdísi hjartanlega velkomna til starfa.