Grunnskólinn á Suðureyri: Viðgerðir og viðhald

Umtalsverðar framkvæmdir hafa átt sér stað í viðhaldi og viðgerðum á húsnæði Grunnskólans á Suðureyri. 

Í maí 2019, var boðin út viðgerð á þaki á grunnskólanum á Suðureyri, vegna þess að mygla hafði greinst í þakvirki. Í febrúar 2021 mældi Tækniþjónusta Vestfjarða raka í tveimur skólastofum og var lagt til að skipta um glugga og fara í viðhald á klæðningu í framhaldinu. Því verki lauk í október 2021.

Við frekari greiningu kom í ljós að þörf var á framkvæmdum í kjallara skólans en vandamál hafa verið í kjallararými frá því að húsið var reist. Orsakir má rekja til þess að þakrennur voru ekki tengdar niðurföllum, ásamt því að ekkert niðurfall er í kjallararými, því hafði vatn greiða leið þangað niður.

Í nóvember 2021 var lögð fram kostnaðaráætlun vegna lagnavinnu, niðurrifs, uppbyggingu og steypuvinnu gólfs í skriðkjallara. Þá var einnig tekin ákvörðun um að fara í frekari framkvæmdir á ytra byrði hússins sem hefur þau áhrif að færa þarf unglingastig skólans tímabundið í húsnæði dagdeildar eldri borgara á Suðureyri.

Verkið er hafið og eru áætluð verklok á ytra byrði, sem hefur áhrif á nýtingu kennslustofa, í byrjun janúar 2022, en í kjallararými í febrúar 2022.