Góð þátttaka í Stóra plokkdeginum
Mikil og góð þátttaka var í Stóra plokkdeginum sem fór fram um síðastliðna helgi. Íbúar á öllum aldri tóku til hendinni í góða veðrinu og söfnuðu rusli á víðavangi.
Á Þingeyri var plokkið í höndum íbúasamtakanna Átaks og er talið að metþátttaka hafi verið í ár. Að plokki loknu bauð Arctic Fish í grill við Blábankann.


Á Suðureyri fór árleg vorhreinsun íþróttafélagsins Stefnis fram á laugardeginum. Þar hjálpuðust ungir sem aldnir að við að hreinsa bæinn.


Á Flateyri sá hverfisráðið um utanumhald og tóku minnst 40 íbúar þátt, meðal annars elsti íbúi þorpsins, Jóhanna Kristjánsdóttir, og sá yngsti, eins mánaðar gömul stúlka Viktorsdóttir. Eftir hreinsunina var farið í kaffi og kakó á Bryggjukaffi.


Öllum þeim sem tóku þátt eru færðar kærar þakkir, svona verkefni skipta miklu máli við að halda bæjunum okkar hreinum og snyrtilegum.
Minnt er á að gróðurgámarnir verða áfram til reiðu fyrir úrgang úr görðum en rétt er að ítreka í þá á ekki að fara neitt annað en garðúrgangur. Þá voru því miður einhver sem sáu sér leik á borði og nýttu plokkhaugana til að losa sig við rusl sem kom augljóslega ekki af víðavangi, meðal annars húsgögn. Slíkt á að sjálfsögðu að fara í gámabíla eða beint í Funa.
Sjá einnig: