Gjaldskrár 2026 – samantekt

Gjaldskrár Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2026 hafa allar verið samþykktar í bæjarstjórn og taka gildi þann 1. janúar.

Almenn hækkun á gjaldskrám er 3,2%, í samræmi við verðbólguáætlun Hagstofu Íslands og forsendur fjárhagsáætlunar sem Samband íslenskra sveitarfélaga sendir sveitarstjórnum. Vinnuliðir í gjaldskrám taka alla jafna 4,2% hækkun, samkvæmt áætlun um hækkun launavísitölu.

Engar hækkanir eru á gatnagerðargjöldum, fráveitugjöldum eða gjaldskrá vatnsveitu. Gjaldskrár fyrir leikskóla, dægradvöl og íþróttaskóla voru uppfærðar á liðnu vori og gilda frá 1. ágúst til 31. júlí 2026.

Helstu breytingar á gjaldskrám

Dýrahald

Gjaldskrá kattahalds breytist, þar sem leyfisskylda er afnumin en afhendingargjaldi er bætt við, í samræmi við tillögur að breytingum á samþykkt um kattahald. Handsömunar- og vistunargjöld eru samræmd samskonar gjöldum vegna handsömunar hunda. Gjaldskrá vegna hundahalds helst óbreytt á milli ára, fjórða árið í röð.

Skíðasvæði

Aðgangur að skíðasvæðum Ísafjarðarbæjar verður gjaldfrjáls fyrir öll börn að 18 ára aldri og er það breyting frá núgildandi gjaldskrá þar sem er gjaldfrjálst fyrir börn 0-5 ára og 50% afsláttur af gjaldskrá fyrir börn 6-18 ára.

Sorp: Meðhöndlun úrgangs

Fast gjald vegna reksturs grenndar- og söfnunarstöðva auk annars fasts kostnaðar lækkar umtalsvert. Gjaldið lækkar úr 39.820 kr. í 16.500 kr. við heimili og úr 19.910 kr. í 8.250 kr. við sumarhús. Aftur á móti er 4,7% hækkun á gjöldum vegna sorpíláta. Heildarsorpjald á heimili þar sem eru tvær tunnur hækkar þá úr 86.900 kr. í 91.000 kr. 

Slökkvilið

Talsverðar breytingar eru á gjaldskrá slökkviliðsins, sú stærsta er að liðir sem byggja á útlögðum kostnaði, þ.e. sala á slökkvitækjum og öðrum eldvarnarbúnaði, eru teknir út. Skýringin er að kostnaður frá birgjum getur tekið breytingum innan hvers árs og því er verðlagning breytileg. Gjaldskrá söluvara er þó alltaf aðgengileg hjá slökkviliðinu.

Þá voru gerðar breytingar á gjaldskrá slökkvitækjaþjónustu þar sem verð voru samræmd verðum frá öðrum sem sinna sömu þjónustu, enda um þjónustu á samkeppnismarkaði að ræða sem óheimilt er að niðurgreiða.

Allar gjaldskrár Ísafjarðarbæjar