Framkvæmdum að ljúka í GÍ

Kennsla er hafin í öllum sex skólastofunum á efri hæð álmunnar.
Kennsla er hafin í öllum sex skólastofunum á efri hæð álmunnar.

Umfangsmiklum framkvæmdum til að uppræta myglu í Grunnskólanum á Ísafirði er nú að ljúka en þær hafa staðið síðan í byrjun sumars. Við sýnatöku í mars á þessu ári fannst mygla í gamla gagnfræðaskólanum og í kjölfarið var álmunni lokað og ráðist í að lagfæra kennslustofur, glugga og þak. Hafa þessar framkvæmdir haft í för með sér töluverða röskun á skólastarfi, enda hýsir álman alla jafna um tvö hundruð nemendur í yngstu árgöngum skólans. Kennarar og starfsfólk skólans hefur því þurft að vinna lausnamiðað til að láta kennslu ganga upp og má með sanni segja að þar hafi mikið þrekvirki verið unnið. Að sögn Sveinfríðar Olgu Veturliðadóttur, skólastjóra, hafa nemendur, foreldrar og starfsfólk sýnt aðstæðunum mikinn skilning sem hafi gert allt ferlið auðveldara og nú ríki mikil ánægja með að skólastarfið sé smám saman að færast í eðlilegt horf.

Áætlað var að verklok yrðu 20. ágúst en umfang framkvæmdanna jókst töluvert og hafa því orðið tafir á verklokum. Allar sex kennslustofurnar á efri hæð álmunnar voru teknar í notkun í síðustu viku en gert er ráð fyrir að klára vinnu við neðri hæðina eftir um fjórar vikur. Samhliða verður vinna á ytra byrði skólans kláruð.