Flokkun um jólin

Íbúar í Ísafjarðarbæ eru hvattir til að huga sérstaklega vel að því að flokka allar umbúðir og annan úrgang sem fellur til á þessum annasama árstíma. 

Gjafapappír fer ásamt dagblöðum, tímaritum, mjólkurfernum, pappa og öðrum pappír í endurvinnslutunnuna. Glansandi „jólapappír“ flokkast með plasti en hægt er að þekkja pappír frá plasti með því að kuðla því saman. Ef það heldur forminu er um pappír að ræða en ef þær „rétta úr sér“ er um plast að ræða.

Bökunarpappír er best að skola og flokka með öðrum pappa en ef hann er gegnsósa eftir notkun má hann fara með lífrænum úrgangi.

Í innra hólf endurvinnslutunnunnar skal setja plastumbúðir (s.s.  sjampóbrúsa, plastdósir, plastpoka, áleggsbréf, kaffiumbúðir og snakkpoka) og málma. Ekki er þörf á að setja úrganginn í glæra plastpoka eins og áður hefur verið gefið út en þó getur það verið betra þegar vindasamt er, til þess að koma í veg fyrir að plastið fjúki. Ef innra hólfið er orðið fullt er hægt að setja plastumbúðir og málma, sem áður er búið að setja í poka, með pappírnum í sjálfa tunnuna.

Krullubönd utan um pakka eru yfirleitt gerð úr plasti.

Mandarínukassar og kertaafgangar fara með óflokkuðum úrgangi en einnig er tekið á móti kertaafgöngum í anddyri Hvestu hæfingarstöðvar Aðalstræti 18 á Ísafirði.  Sprittkertabikarar mega fara í endurvinnsluhólf.

Ónýt jólaljós og seríur flokkast sem raftæki og eiga að berast í Funa.

Þá er vert að minna á hvað flokkast sem lífrænn úrgangur:

Ávextir og ávaxtahýði, grænmeti og grænmetishýði, egg, eggjaskurn, eldaðir kjöt- og fiskafgangar, mjöl, hrísgrjón og pasta, brauð, kökur, tepokar og kaffikorgur. Einnig mega notaðar servíéttur og eldhúsbréf fara með í tunnuna.